-5.4 C
Selfoss

Hótel South Coast opnar við Eyra­veg á Selfossi í byrjun júní

Vinsælast

Hótel South Coast við Eyra­veg á Selfossi opnar dyrnar fyrir gestum sínum þann 1. júní nk. Rekstraraðili hótels­ins, Báru­kór ehf., hefur ráðið Davíð Kjart­ans­­son í starf hótelstjóra.
Hótelið er fjögurra stjörnu hótel hannað af Guðna Pálssyni á GP arkitekt­um. Það er með 72 rúm­góðum og vel útbúnum her­bergj­um. Þar af eru 7 superior herbergi sem eru 34 m² og 8 her­bergi með hjóla­stólaaðgengi. Stand­ard her­bergin eru 24 m² að stærð. Ásamt þessu er góð líkams­­ræktaraðstaða og heilsu­lind sem stefnt er á að opna í ágúst. Þá er fundaraðstaða og bar í lobbýinu. Hótelið er staðsett í hjarta bæjar­ins og er nálægt allri helstu þjónustu.

„Við verðum í samstarfi við Kaffi krús í sumar. Þeir sjá um matargerðina og þjónustu­hliðina í veitingasal hótelsins. Svo er auð­­vitað stutt í alla þjón­ustu á svæð­inu og Suðurlandið ákaflega ríkt af afþreyingu og áhugaverð­um áfangastöðum fyr­ir ferða­menn að njóta,“ segir Davíð. Aðspurður um hvort ekki fylgi fjölgun starfa þessu verkefni seg­ir Davíð: „Það er mér ákveð­ið kapps­mál að vinna þetta með heimamönnum og við erum ein­mitt að leita að fólki í hin ýmsu störf. Það er um að gera að vera í sambandi við okkur ef áhugi er fyrir hendi.“

Davíð er enginn nýgræðingur þegar kemur að hótelrekstri en hann starfaði m.a. sem rekstrar­stjóri hjá Adventure Hotels, ION Luxury, Centerhotel Miðgarði svo eitthvað sé nefnt.
„Ég lauk Bsc gráðu í hótel­stjórn­un og ferða­málafræði við César Ritz University í Sviss. Þá er ég með MS gráðu í alþjóða­viðskiptum og markaðs­fræði við Háskóla Íslands. Þess má geta að Davíð er afreksmaður í skák, en hann er margfaldur Íslands- og Norður­landameistari og nýjasti alþjóð­legi meistari okkar Íslend­inga. „Þetta er eitt­hvað sem ég hef fengist við lengi og hef mik­inn áhuga og ástríðu fyr­ir, eins og hótel­reksturinn.“ 

Nýjar fréttir