Hótel South Coast við Eyraveg á Selfossi opnar dyrnar fyrir gestum sínum þann 1. júní nk. Rekstraraðili hótelsins, Bárukór ehf., hefur ráðið Davíð Kjartansson í starf hótelstjóra.
Hótelið er fjögurra stjörnu hótel hannað af Guðna Pálssyni á GP arkitektum. Það er með 72 rúmgóðum og vel útbúnum herbergjum. Þar af eru 7 superior herbergi sem eru 34 m² og 8 herbergi með hjólastólaaðgengi. Standard herbergin eru 24 m² að stærð. Ásamt þessu er góð líkamsræktaraðstaða og heilsulind sem stefnt er á að opna í ágúst. Þá er fundaraðstaða og bar í lobbýinu. Hótelið er staðsett í hjarta bæjarins og er nálægt allri helstu þjónustu.
„Við verðum í samstarfi við Kaffi krús í sumar. Þeir sjá um matargerðina og þjónustuhliðina í veitingasal hótelsins. Svo er auðvitað stutt í alla þjónustu á svæðinu og Suðurlandið ákaflega ríkt af afþreyingu og áhugaverðum áfangastöðum fyrir ferðamenn að njóta,“ segir Davíð. Aðspurður um hvort ekki fylgi fjölgun starfa þessu verkefni segir Davíð: „Það er mér ákveðið kappsmál að vinna þetta með heimamönnum og við erum einmitt að leita að fólki í hin ýmsu störf. Það er um að gera að vera í sambandi við okkur ef áhugi er fyrir hendi.“
Davíð er enginn nýgræðingur þegar kemur að hótelrekstri en hann starfaði m.a. sem rekstrarstjóri hjá Adventure Hotels, ION Luxury, Centerhotel Miðgarði svo eitthvað sé nefnt.
„Ég lauk Bsc gráðu í hótelstjórnun og ferðamálafræði við César Ritz University í Sviss. Þá er ég með MS gráðu í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði við Háskóla Íslands. Þess má geta að Davíð er afreksmaður í skák, en hann er margfaldur Íslands- og Norðurlandameistari og nýjasti alþjóðlegi meistari okkar Íslendinga. „Þetta er eitthvað sem ég hef fengist við lengi og hef mikinn áhuga og ástríðu fyrir, eins og hótelreksturinn.“