Um 5500 manns voru saman komnin til að horfa á fyrstu torfærukeppni sumarsins. Flugbjörgunarsveitin á Hellu og akstursíþróttanefnd Umf. Heklu höfðu veg og vanda að keppninni sem haldin var með pompi og pragt í blíðskaparveðri á Hellu laugardaginn 4. maí sl.
Geir Evert Grímsson á Sleggjunni hreppti Helluna að þessu sinni en hann stóð efstur að stigum að keppni lokinni með 1774 stig. Geir sýndi flott tilþrif og ók örugglega í gegnum alla keppnina auk þess að klára ána og mýrina með stæl. Í öðru sæti varð Ingólfur Guðvarðsson á Guttanum með 1712 stig. Alls tóku luku nítján keppendur keppni.
Aðrir ökumenn sýndu flott tilþrif. Aron Ingi Svansson á Stormi hreppti tilþrifaverðlaunin í flokki sérútbúinna bíla eftir mikla flugsýningu í brautunum og magnaða björgun frá veltu í tímabraut. Jakob Nielsen Kristjánsson á Pjakknum í götubílaflokki færði flokkinn upp á annað plan og lét vaða í barðið í fyrstu braut og flaug bókstaflega upp brekkuna og fékk tilþrifaverðlaun götubílaflokksins að launum. Haukur Viðar Einarsson á Heklu náði mesta hraðanum í ánni, alls 98 km/klst og var 4 km/klst frá heimsmetinu. Íslandmeistarinn og Heimsmetshafinn Þór Þormar Pálsson náði sér ekki á strik í keppninni en sýndi frábæra takta og fór góða veltu eins og honum einum er lagið. Óskar Jónsson á Úlfinum kom sá og sigraði í götubílaflokki í sinni fyrstu keppni á nýsmíðuðum bíl. Það verður að teljast góður árangur.
Erlendir gestir frá sjónvarpsþættinum Top Gear voru á svæðinu og fengu að taka þátt í keppninni. Bretarnir Cristopher Harris og Freddie Flintoff höfðu það af að enda ofan við miðju í stigatöflunni eftir daginn. Það verður að teljast þokkalegur árangur enda báðir í sinni fyrstu keppni en annar þeirra settirst fyrst undir stýri 30 mínútum fyrir keppni.