Opið hús verður í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi fimmtudaginn 30. mars næstkomandi kl. 16–20 þar sem deiliskipulagstillaga Hvammsvirkjunar í Þjórsá verður kynnt. Fulltrúar frá Landsvirkjun og skipulagsráðgjafar verða á staðnum til að svara fyrirspurnum.
Áður en sveitarstjórnir Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps taka tillöguna til afgreiðslu er hún kynnt íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. Framkvæmdasvæði Hvammsvirkjunar er í báðum sveitarfélögunum. Stöðvarmannvirki verða í landi Hvamms í Rangárþingi ytra, en stíflumannvirki og lón munu taka yfir land í ofanverðri Landsveit og í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Tillöguna er hægt að nálgast rafrænt á heimasíðu Rangárþings ytra og á heimasíðu skipulagsfulltrúa Skeiða- og Gnúpverjahrepps.