Þegar keyrt er austur með Ingólfsfjalli áleiðis að Þrastalundi sést bærinn Laxabakki við litla vík við sunnanvert Sogið
Við nánari skoðun kemur í ljós tveggja bursta bær sem snýr mót suðvestri og fundinn hefur verið staður uppi á lágum hjalla en í skjóli frá ávölum hæðum til norðurs og austurs. Bátaskýli stendur á árbakkanum, en hávaxin grenitré sem rísa upp úr lágvöxnum birkikjarri marka útjaðra landsins sem tilheyra Laxabakka. Þessi fallegi litli bær fellur svo vel að landinu að halda mætti að þarna hafi hann alltaf verið og þarna muni hann fá að standa á sínum stað um ókomna tíð.
Laxabakki
Húsið er byggt sem sumarhús 1942 á eins hektara afgirtri lóð úr landi Öndverðarness 2 og hefur síðan tekið litlum sem engum breytingum. Yfir hliði við enda heimreiðarinnar hangir útskorið skilti með nafni bæjarins, byggingarári og stílfærðum laxi á bakhlið.
Hér er um að ræða byggingu sem er sambland af torfbæ og timburhúsi og stendur því mjög föstum fótum í innlendri hefð en sker sig jafnframt úr sem hönnunargripur með sterk höfundareinkenni sem ná bæði til hússins sjálfs, innréttinga, húsmuna og umhverfismótunar.
Laxabakki er síðasti hlekkurinn í óslitinni ellefu hundruð ára byggingarsögu íslenska torfbæjarins og baðstofan þar er sú síðasta sem er rétt smíðuð samkvæmt aldagamalli hefð. Laxabakki er jafnframt einn af einungis þremur fullgildum torfbæjum sem enn standa í Árnessýslu; hinir tveir eru Tannastaðir í Ölfushreppi og Austur-Meðalholt í Flóahreppi.
Laxabakkki er einnig í meðvitaðri samræðu við ýmsar hræringar í samtímabyggingarlist og hönnun, innréttingar og húsgögn eru sérhönnuð og smíðuð fyrir húsið. Allt handverk, frá veggjahleðslu, trésmíði, útskurði sem gerður er af Ríkharði Jónssyni myndhöggvara, húsgagnasmíði, innréttingum, málningarvinnu og málaralist ber vott um afar fagleg vinnubrögð. Hér eiga stærstan hlut að máli Ósvaldur sjálfur og Nikulás Halldórsson trésmíðameistari.
Þegar hinn heimsfrægi finnski arkitekt Alvar Alto kom til landsins til þess að vera við opnun Norræna hússins sem hann teiknaði (1969) heimsótti hann staðinn og lét þá þau orð falla, að Laxabakki væri fallegasta hús sem hann hefði séð á Íslandi.
Uppbyggingaráform
Síðustu tvo áratugi hefur þetta einstaka mannvirki staðið berskjaldað og látið mjög undan niðurrifsöflum, í raun má segja að það vegi nú salt á grafarbakkanum. Björgunaraðgerðir geta ekki beðið.
Vorið 2018 varð Íslenski bærinn þinglýstur eigandi að Laxabakka ásamt húsum og tilheyrandi lóð með það markmið eitt að koma þessari byggingarsögulegu perlu til bjargar og blása í hana nýju lífi. Íslenski bærinn er fræðslusetur um torfbæjararfinn, hefðbundna verkmenningu, listsköpun og vistvæna byggingarlist, staðsett að Austur-Meðalholtum.
Nú hefur verið ákveðið ásamt velviljuðum hópi fræðimanna, hönnuða, listamanna og handverksmanna að ganga fram fyrir skjöldu og taka húsin niður með varfærnum hætti, lagfæra skemmdir og íhluti eftir þörfum, og endurbyggja aftur á upprunalegri lóð við Sogið, enda mynda húsin og umhverfi Laxabakka órofa heild. Viðeigandi vélakosti verður beitt við verkið, lóðin afgirt á ný á grundvelli 80 ára lóðamarka, leitað verður eftir heimild til aðgengis að rennandi vatni og rafmagni. Auk þess verður komið fyrir snyrtingu í samræmi við nútímakröfur.
Samtímis er stefnt að því að gera þetta verkefni að kennsluvettvangi í ýmsu sem lýtur að handverki, túlkun og varðveislu húsa af þessum toga og finna því síðan verðugt hlutverk í samhengi við rannsóknir og aukinn skilning á innlendum byggingararfi og samþættingar milli húsa og náttúru. Jafnframt er gert ráð fyrir að byggja nauðsynlegan þjónustuskála á svæðinu mjög róttæka vistvæna byggingu, sem mun falla nær alveg inn í umhverfið. Laxabakki ásamt þessum vistvæna þjónustuskála mun nýtast sem dvalarstaður, fræðslumiðstöð, vinnustofa og aðsetur fyrir lista- og fræðimenn. Kjörorð staðarins er sótt í smiðju þýska heimspekingsins Martin Heidegger: Bauen Wohnen Denken/Byggja Búa Hugsa.
Einn fremsti, og reynslumesti landslagsarkitekt landsins mun hanna umhverfi húsa og aðkomu, en lóð Laxabakka og mannvirki munu síðan verða opnuð almenningi til að njóta og skoða.
Minjastofnun Íslands styður þessa aðgerð með ráðum og dáð og sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hefur lýst yfir jákvæðum stuðningi við fyrirliggjandi uppbyggingaráform. Ef þær áætlanir ganga eftir mun Laxabakki og umhverfi hans verða til mikils sóma jafnt fyrir sveitarfélagið og héraðið og standa undir nafni sem þjóðargersemi og framlag Íslands til staðbundinnar byggingarlistar á heimsvísu.
Girndaraugu
Landvernd, sem eru félagsamtök sem starfa að umhverfismálum, og Héraðsnefnd Árnesinga voru færðar jarðirnar Alviðra og Öndverðarnes 2 að gjöf árið 1973, samtals mörg hundruð hektarar. Undanskildar í þessari gjöf voru þrjár sumarbústaðalóðir við Sogið sem liggja að landi Öndverðarness 2, hver um sig er einn hektari eða 10.000 m². Ein þessara lóða er sú sem tilheyrir Laxabakka.
Þrátt fyrir þetta mikla og fallega land sem Héraðsnefndinni og Landvernd hefur verið fært til umsjónar hafa þessir aðilar löngum jafnframt rennt hýru auga til þessara þriggja litlu lóða með þann ásetning að ná þeim af eigendum þeirra með góðu eða illu, en síðustu árin ágirnst Laxabakka sínu mest. Meðan húsin voru enn í nothæfu ástandi náði ásælnin ekki síður til húsanna en lóðarinnar. Löngunin í húsin virðist síðan hafa minnkað í hlutfalli við þverrandi ástand þeirra, þrátt fyrir að samtímis hafi verið meiri umræða um ótvírætt menningargildi og fagurfræðilegt verðmæti Laxabakka eins og gert hefur verið grein fyrir í fjölda fyrirlestra, ritgerða og á nýafstöðnu málþingi. Hér eru að vísu að mörgu leyti á ferðinni óáþreifanleg gildi sem ekki verða svo glatt metin til fjár.
Svo rammt hefur kveðið að þessari taumlausu ágirnd að löggiltum eigendum Laxabakka hefur árum saman verið settur stóllinn fyrir dyrnar varðandi öll uppbyggingaráform á staðnum með því að neita að skrifa undir löggilt lóðablað og staðfesta þannig fyrirliggjandi lóðamörk. Þessi dæmalausa framkoma virðist höfð í frammi í þeirri von að þannig megi á endanum ná undir sig lóðinni með því að flæma eigendurna burt af staðnum og frá húsum sem þeim er meinað að umgangast og verja með eðlilegum hætti. Þessir aðilar hafa þó hvergi lýst neinum áformum um sérstaka nýtingu þessa litla viðbótarskika ef meint landtökuáform gengju eftir. Sjálf Laxabakkahúsin, sál staðarins, hafa fulltrúar þessara aðila kallað „kofaskrifli og umhverfisspjöll sem best væri að fjarlægja sem fyrst“. Þess vegna má telja harla ólíklegt að húsverndunarsjónarmið séu forsendur málatilbúnaðar og óvinveittrar framgöngu.
Mörg bréf hafa verið skrifuð Landvernd og Héraðsnefndinni síðustu mánuði og ár með vinsamlegum tilmælum um að þessi almannasamtök láti af þessari ásælni og hleypi löggiltum eigendum, og greiðendum fasteignagjalda til margra áratuga, að eignum sínum og skrifi undir lóðablað eins og ærlegir nágrannar gera. Einnig hefur þessum aðilum verið boðið samstarf um uppbyggingu og nýtingu lands og húsa; en allt hefur komið fyrir ekki.
Nú eru góð ráð dýr. Ég legg því þessa spurningu fyrir lesendur: Á að láta það eftir niðurrifsöflunum að vinna sitt verk hægt og bítandi, mótspyrnulaust og smám saman leggja þannig Laxabakka og umhverfi hans í rúst, ásamt öllum áformum um uppbyggingu og nýtingu, eða á að stíga fram fyrir skjöldu til varnar litla bænum við Sogið, ellefu hundruð ára byggingarhefð, íslenskri menningu, byggingarlist og einstakri samtvinnun mannvirkja?
Hannes Lárusson, staðarhaldri á Íslenska bænum að Austur-Meðalholtum.