-6.1 C
Selfoss

Guðmundur Kr. kjörinn heiðursfélagi Umf. Selfoss

Vinsælast

Á aðalfundi Ungmennafélags Selfoss sem fram fór í félags­heimilinu Tíbrá þann 4. apríl sl. bar það helst til tíðinda að Guðmund­ur Kr. Jónsson var kjörinn heið­urs­fél­agi Umf. Selfoss.

Guðmundur Kr. er fjórtándi heiðursfélagi félagsins en núlifandi eru Kristján S. Jóns­son, Tómas Jónsson, Björn Ingi Gíslason og Sigurður Jónsson.

Guðmundur varð snemma öfl­ugur félagsmálamaður og hefur tekið virkan þátt í starfi Umf. Sel­foss frá unga aldri. Hann var for­maður frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss árin 1968–1979, gegndi síðar stöðu vallarstjóra á Selfoss­velli, stöðu framkvæmdastjóra fél­agsins og var formaður Umf. Selfoss frá 2014–2018. Guð­mund­ur tekur enn virkan þátt í störfum félagsins, mætir á alla viðburði sem hann kemst á og er þulur og ræsir á hinum ýmsu viðburðum frjálsíþróttadeildar. Á hér­aðsþingi HSK í fyrra var hann kosinn heiðursformaður HSK, sá þriðji frá upphafi.

Við þetta sama tækifæri var Lára Ólafsdóttir, eiginkona Guð­mund­ar, sæmd silfurmerki Umf. Selfoss en hún hefur starfað um árabil innan frjálsíþróttadeildar Sel­foss sem gjaldkeri í stjórn, á fjölmörgum mótum og við Brú­arhlaupið frá upphafi auk þess sem hún hefur fætt fleiri þúsundir munna á mótum vítt og breitt um landið með Selfoss.

Hlöðver Örn Rafnsson var einnig sæmdur silfurmerki Umf. Selfoss en hann kom inn í starf knatt­spyrnudeildar á 9. áratug sein­ustu aldar sem þjálfari og síðar sem stjórnarmaður þar sem hann lyfti Grettistaki við að rétta af fjárhag deildarinnar. Hann er jafnframt frumkvöðull varðandi herrakvöld knattspyrnudeildar.

Stjórn félagsins var endurkjör­in á fundinum en hana skipa Viktor S. Pálsson formaður, Hjalti Þorvarðarson gjaldkeri, Dýrfinna Sigurjónsdóttir ritari og Sigrún Hreiðarsdóttir og Sverrir Einars­son meðstjórnendur.

Á fundinum voru veittar við­ur­kenn­ingar þar sem Guðmundi Karli Sigurdórssyni var afhentur Björns Blöndal bikarinn sem félagi ársins fyrir framúrskarandi sjálfboðaliðastörf á vegum fél­ags­ins en hann hefur verið manna duglegastur að skrásetja sögu félagsins bæði í myndum og texta, ávallt tilbúinn þegar til hans er leitað. Handknattleiks­deild félagsins hlaut UMFÍ-bik­ar­inn sem deild ársins fyrir góðan árangur meistaraflokks karla í Evrópukeppni og Íslandsmóti.

Rekstur félagsins er að mestu í samræmi við áætlun en ljóst er á öllum rekstrartölum að öflugt og metnaðarfullt starf er í gangi hjá félaginu. Þannig var velta félags­ins árið 2018 tæplega 430 millj­ón­ir króna og er félagið einn stærsti launagreiðandi í sveitar­fél­aginu en það greiðir árlega nærri 250 milljónir í laun og launa­tengd gjöld skv. því sem fram kemur í samstæðureikningi. gj

Nýjar fréttir