Jón Þór Jóhannsson er Sunnlenski matgæðingur vikunnar að þessu sinni.
Ég vil þakka Valgerði fyrir þessa áskorun um að vera matgæðingur vikunnar. Ég verð eiginlega að skora á hana að bjóða mér í mat þar sem ég á bágt með að trúa að hún geti eldað þetta allt sem hún var með í síðustu Dagskrá.
Eina sem ég get gert þokkalega í matreiðslu er að grilla og hef nokkuð gaman af því að prófa mig áfram í þeim efnum. Ég notast nánast eingöngu nú orðið við kolagrill þar sem gaman er að prófa mismunadi tegundir af kolum og finna þetta aukabragð sem kolin gefa.
Ég grilla mikið af lambakjöti og mæli ég með að úrbeina lambalæri og marinera það, í marineringuna nota ég:
Soyasósa, sirka 3 matskeiðar
Balsamik edik, sirka 1 desilítra
Kjöt- og grillkrydd
Maldon salt
Púðursykur, 1 matskeið
Þessu blanda ég saman og læt kjötið liggja í því í nokkra klukkutíma.
Grillið er svo keyrt upp og kolin höfð öðru megin í grillinu, kjötið er svo sett á grillið þeim megin sem kolin eru ekki og látið ná ca. 60 gráðum, þá er kjötið fært yfir kolin; þá fáum við fallegar grillrendur.
Með þessu er gott að grilla lauk, papriku, brokkolí og kúrbít. Það grófsaxa ég og set á Weber-grænmetisbakka, þegar þetta er orðið vel grillað er gott að setja 3-4 matskeðar af kjötmarineringunni yfir og hafa í 1-2 mínutur áfram á grillinu.
Með þessu er svo nauðsynlegt af hafa kartöflur og góða sósu.
Það sem ég geri oftast eru grillkartöflur og sætar kartöflur skornar til helminga og þeim raðað á ofnplötu, smá olía og Maldon salt ofan á þær og hef þær í ofninum í klukkutíma á 200°C.
Ég kann ekki að gera sósur en hvítlaukssósan úr Bónus klikkar ekki og gerir allan mat betri
Að sjálfsögðu er varla hægt að gera þetta á öðru en Weber-grillum.
Mig langar að skora á vinnufélaga minn, Lárus Kristin Guðmundsson. Ég öfunda hann oft af því hvað hann kemur með girnilegan mat í vinnuna.