-7.7 C
Selfoss
Home Fréttir Tækifæri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi

Tækifæri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi

0
Tækifæri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi
Skafti Bjarnason oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Í vetur hefur verið starfandi sjálfsprottinn hópur ungmenna sem rætur eiga að rekja í Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Þau hafa haldið opna fundi um atvinnumál þar sem íbúum og öðrum sem hafa áhuga á sveitarfélaginu hefur verið boðinn þátttaka.

Á hugarflugsfundi sem þau héldu komu fram yfir hundrað hugmyndir um tækifæri sem vinna mætti að. Margar þessara hugmynda eru nýjar en sumar hafa verið í vinnslu áður en þessi hópur hóf störf og eru jafnvel að nálgast framkvæmdastig. Þar vil ég nefna sundlaugina í Þjórsárdal. Þar er verið að vinna með hugmyndir sem munu sóma staðnum og skapa ýmis tækifæri.

Við sem störfum að sveitarstjórnarmálum þurfum að ýta undir að tækifærin séu nýtt á skynsamlegan hátt en ekki ákveða fyrirfram hvað séu tækifæri.

Stundum þarf að hlú að verkefnum svo sem byggingu iðnaðarhúsnæðis í Árnesi sem Búnaðarfélag Gnúpverja stendur fyrir. Stundum þarf að hvetja menn af stað eins og verið er að gera með byggingu íbúðarhúsa í Árnesi. Stundum fer boltinn að rúlla eins og er að gerast í Brautarholti. Þar eru áformaðar milli tíu og tuttugu íbúðir. Þegar slík bylgja rís þarf að vanda til verka og hugsa til framtíðar.

Nú er virkjunin Búrfell tvö í byggingu. Mikinn mannafla þarf til að byggja slíkt mannvirki. Þar sem hluti þeirra erlendu verkamanna er skrifaður í sveitarfélaginu hefur íbúatalan hækkað. Fjölgunin milli ára er 73 íbúar en rúmur helmingur er vegna Búrfells.

Þrátt fyrir meintan húsnæðisskort hefur fjölgað í kringum þrjátíu íbúa á árinu fyrir utan virkjanastarfsmenn sem búa hér tímabundið.

Margt er gert og margt þarf að gera. Í undirbúningi er íbúafundur á vegum sveitarstjórnar þar sem eitt aðalmálefnið er endurskoðun aðalskipulags Skeiða – og Gnúpverjahrepps ásamt fleiru.

Áður en að honum kemur verður fundur hjá F- listanum, svokölluðum minnihluta í sveitarstjórn. Þar verða frummælendur Sigurður Ingi Jóhannsson og Kolbeinn Óttarsson Proppe. Fundurinn er klukkan 20:00 sunnudagskvöldið 26. mars. Ég hvet alla til að mæta og hlusta á forvitnilega frummælendur.