Þessa dagana erum við fjölskyldan á ferðalagi í Ástralíu. Það er merkileg upplifun að vera „down under” eins og oft er talað um. Þetta land er afskaplega fallegt og veðrið yndislegt. En þegar við erum á ferðalagi með stóra fjölskyldu með misgóða aðstöðu til að elda okkur mat, smyrja nesti og þess háttar er ég afskaplega þakklát fyrir það hugarfar sem ég hef tamið mér gagnvart mataræði. Ég lít á mat sem bensín. Matur er hleðsla fyrir líkaman og eftir því sem maturinn nærir líkamann betur því betur líður mér. Mataræði er ekki hægt að hafa 100% fullkomið alla daga og því er mikilvægt að temja sér jafnvægi. Matarkúrar fylgja tískunni eins og föt og því er mikilvægt að hver og einn finni sinn takt. Í dag getur þú valið um að vera Ketó, Vegan, Pegan, Paleo og margt annað. En hvað er það sem nærir þinn líkama best? Hvað er það sem þú veist að þú þrífst best af? Ég tel að það sé erfitt að velja sér ákveðna tegund af mataræði og halda sér við það alla ævi. Þess vegna kenni ég markþegum mínum 80/20% regluna. Hún felst í því að við veljum í 80% tilfella að borða mat sem nærir okkur vel og okkur líður vel af en þó svo að við förum út af beinu brautinni í einstaka tilfellum þá er það allt í lagi. Það sem flest allir megrunarkúrar eiga sameiginlegt er að fólki fer að líða betur og missir jafnvel einhver kg og í flestum tilfellum fer fólk að minnka inntöku á unnum matvörum og borða meira af grænmeti. Ég hef því tileinkað mér það að hafa þessa hugsun að leiðarljósi. Borða sem mest hreinan mat með sem fæstum innihaldsefnum og borða grænmeti eins oft og ég get. Ég drekk líka kaffi í hófi og elska súkkulaði (en reyni að hafa það sem dekkst) og það er allt í lagi. Lífið snýst um jafnvægi.
Á ferðalagi eins og við fjölskyldan erum í þá get ég ekki haft mataræðið fullkomið. Ég þarf að smyrja nesti og reyni að velja vel. Ég elda stundum mat og reyni að velja vel. Við förum stundum út að borða en við reynum að velja vel og munum að okkur mun líða betur ef við veljum mat sem nærir okkur vel. Ég reyni að halda í 80/20 % regluna og ég reyni að kenna börnunum mínum slíkt hiða sama. Í mörgum tilfellum gengur það vel en ekki í öllum. Einn sonur minn er mjög meðvitaður um hvað fer vel í hann og hvað illa á meðan einn þeirra myndi borða mat sem nærir líkamann hans illa í a.m.k. 50% tilfella ef hann fengi að ráða.
Lífið er lærdómur og ég veit að ég er fyrirmynd barnanna minna. Ég vil ekki að börnin mín verði öfgafull heldur læri að lifa lífinu í jafnvægi eins og ég reyni markvisst að gera á hverjum degi. Börnin mín sjá mömmu sína ekki alltaf borða á fullkomin hátt en þau læra þó með tímanum hvað almennt gott mataræði er.
Ef þú hefur áhuga á að fylgjast með okkur á ferðalaginu okkar þá getur þú fylgst með á Facebooksíðunni Einfaldara líf og á Instagram undir gunnastella.
Lifðu lífinu í jafnvægi,
Kærleikskveðja,
Gunna Stella