-7.6 C
Selfoss
Home Fréttir Tekið á móti „Stúlku“ í Rauða húsinu á Eyrarbakka

Tekið á móti „Stúlku“ í Rauða húsinu á Eyrarbakka

0
Tekið á móti „Stúlku“ í Rauða húsinu á Eyrarbakka

Stúlka er fyrsta ljóðabókin sem kom út eftir konu á Íslandi og það var Júlíana Jónsdóttir sem samdi og gaf bókina út árið 1876.

Á seinasta ári var Konubókastofu á Eyrarbakka boðið að kaupa bókina en sárafá eintök eru til. Söfnun fór af stað og gekk mjög vel. Fljótlega hafði þó kona samband við safnið og sagðist eiga eintak í fórum sínum sem hún vildi gefa safninu við gott tækifæri.

Sunnudaginn 31. mars klukkan 14 verður sem sagt tekið á móti Stúlku með dagskrá á vegum Konubókastofu. Móttakan verður í Rauða Húsinu á Eyrarbakka og tileinkuð rithöfundinum Júlíönu Jónsdóttur. Þar mun prófessor Helga Kress flytja erindi um Júlíönu og verk hennar. Fyrirlesturinn kallar Helga „Stúlka án pilts. Um líf og ljóð skáldkonunnar Júlíönu Jónsdóttur (1838–1917), þeirrar fyrstu sem gaf út ljóðabók á Íslandi.”

Helga Kress er prófessor emeritus í bókmenntafræði við hugvísindadeild Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hennar er íslensk bókmenntasaga og íslensk bókmenntahefð að fornu og nýju frá kvenna- og kynjafræðilegu sjónarhorni. Hún er brautryðjandi í femínískum bókmenntarannsóknum hér á landi og einn af okkar mikilvirkustu og áhrifamestu bókmenntafræðingum.

Á dagskránni verður m.a. upplestur á ljóðum Júlíönu. Boðið verður upp á kaffi og umræður. Að lokum er vert að geta þess að féð sem safnaðist vegna bókakaupana mun verða notað til að festa kaup á góðum sýningarskáp fyrir eintakið sem Konubókastofa fær nú að gjöf. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.