Handknattleikskonan Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir sem leikur með meistaraflokki Selfoss í Olísdeildinni sleit krossband í æfingaleik með íslenska landsliðinu gegn Hollandi í síðustu viku. Þetta þýðir að hún verður frá keppni næstu 9–12 mánuði. Hrafnhildur Hanna hefur verið algjör burðarás í liði Selfoss síðustu þrjú keppnistímabil og því bagalegt fyrir liðið að missa hana nú þegar framundan eru umspilsleikir hjá liði Selfoss um að halda sæti sínu í Olísdeildinni.
Í viðtali á mbl.is kemur fram að erlend félög hafi sýnt Hönnu áhuga enda hafi hún farið á kostum hér heima. Hún sé langmarkahæst í Olís-deildinni í vetur með 174 mörk, 34 mörkum fleiri en næsti leikmaður, og hafi orðið markadrottning deildarinnar síðustu tvö ár auk þess að vera kjörin besti sóknarmaðurinn. Nú þurfi hún væntanlega að bíða með atvinnumennskuna:
„Það var svona hugmyndin [að fara út í sumar] og ég var farin að skoða það, en ætli það verði nokkuð af því á þessu ári? Það verður bara að bíða betri tíma, vonandi. Það var ekkert ákveðið í þeim efnum og núna verður maður bara að sjá til hvað gerist í framtíðinni,“ sagði Hanna í viðtali á mbl.is. (Viðtalið má lesa hér)
Ljóst er að nú reynir meira á aðra liðsmenn Selfoss þegar aðal markaskorari liðsins er frá keppni.