Um 120 manns mættu á héraðsþing HSK sem haldið var á Laugalandi í Holtum fimmtudaginn 14. mars sl. Þetta var í fyrsta skipti í sögu sambandsins sem þingið fer fram í miðri viku. Þessi breyting þótti takast vel og líklegt má telja að þing sambandsins verði framvegis haldin seinni part dags á virkum degi.
Stjórn HSK lagði fram 17 tillögur og voru þær allar samþykktar, en nokkrum þeirra var breytt í meðförum þingsins. Þinggerð er væntanleg frá riturum og verður hún birt á vef HSK á næstu dögum. Engar breytingar urðu á stjórn sambandsins, en allir stjórnar- og varastjórnarmenn gáfu kost á sér áfram.
HSK veitti nokkur sérverðlaun á þinginu, líkt og undanfarin ár. Umf. Þjótandi hlaut unglingabikar HSK, Umf. Hrunamanna fékk foreldrastarfsbikarinn og þá var Marteinn Sigurgeirsson valinn öðlingur ársins.
Á héraðsþinginu voru nokkrir einstaklingar af sambandssvæði HSK heiðraðir fyrir þeirra störf fyrir hreyfinguna. Guðni Guðmundsson, Umf. Ingólfi og Íþf. Garpi, var sæmdur gullmerki HSK og Gissur Jónsson, Umf. Selfoss og Haraldur Gísli Kristjánsson, Íþf. Garpi, voru sæmdir silfurmerki HSK. Valgerður Auðunsdóttir, Umf. Skeiðamanna, var sæmd heiðurskrossi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Guðmunda Ólafsdóttir, Umf. Þjótanda, fékk einnig viðurkenningu frá ÍSÍ en hún var sæmd silfurmerki sambandsins. Guðríður Aadnegard, formaður HSK, var sæmd gullmerki Ungmennafélags Íslands. Þrír einstaklingar fengu starfsmerki UMFÍ þau Sigríður Anna Guðjónsdóttir, Umf. Selfoss, Jóhanna Hlöðversdóttir, Íþf. Garpi og Guðmann Óskar Magnússon, Íþf. Dímoni.
Vefútgáfu ársskýrslunnar má sjá á www.hsk.is.