-5 C
Selfoss

Árleg byssusýning í Veiðisafninu á Stokkseyri

Vinsælast

Árleg byssusýning Veiðisafnsins á Stokkseyri, sem í ár verður í samvinnu við verslunina Hlað, verður haldin laugardaginn 16. og sunnudaginn 17. mars næstkomandi kl. 11–18 í húsakynnum Veiðisafnsins, Eyrarbraut 49, Stokkseyri.

Hjálmar í Hlað og félagar sýna úrval skotvopna og búnað til skotveiða ásamt sjónaukum og aukabúnaði. Fjölbreytt úrval skotvopna verður til sýnis, haglabyssur, rifflar, skammbyssur og herrifflar ásamt ýmsu tengdu skotveiðum m.a úr einkasöfnum. Hartmut Liedtke verður á staðnum með sérstaka kynningu á sjónaukum frá Blaser í Þyskalandi sem er nýjung hérlendis. Kynntir verða rifflar frá Blaser, Sauer, haglabyssur frá Marocchi og Blaser, einnig sjónaukar frá Zeiss og Meopta ásamt hljóðdeyfum frá Hausken, Devik og Freyr, endurhleðsluvörum frá Hornady, Redding, Lyman, Berger Bullets o.fl. Skotvís verður með kynningu á sinni starfsemi og Bogveiðifélag Íslands verður einnig með kynningu á sinni starfsemi og sýnir búnað tengdum bogveiðum o.fl.

Gestur byssusýningar í ár er Óskar Elías Sigurðsson uppstoppari frá Vestmannaeyjum. Hann verður með kynningu á sínum verkum og verðu þar margt fallegt að sjá af uppstoppuðum dýrum. Einnig verða til sýnis skotvopn og munir frá Sverri Scheving Thorsteinssyni, Sigurði Ásgeirssyni, Einari frá Þverá, Sveini Einarssyni frv.veiðistjóra, Sigmari B. Haukssyni og Drífu-haglabyssur frá Jóni Björnssyni heitnum frá Dalvík, svo eitthvað sé nefnt.

Byssusýning Veiðisafnsins er landsþekkt og er aldrei eins á milli ára og sýningin í ár er þar engin undantekning. Allt áhugafólk um skotvopn og veiðar er velkomið. Nánari upplýsingar má sjá á www.veidisafnid.is og www.hlad.is.

Nýjar fréttir