-8.9 C
Selfoss
Home Fastir liðir Félagsráðgjafar á Suðurlandi Samskipti við fólk með minnissjúkdóm

Samskipti við fólk með minnissjúkdóm

0
Samskipti við fólk með minnissjúkdóm
Kristjana Sigmundsdóttir.

Að greinast með minnissjúkdóm er mikið áfall fyrir viðkomandi einstakling og fjölskyldu hans. Færni til að tjá sig í samskiptum við aðra breytist og þá reynir á aðra í umhverfi einstaklingisins að finna besta samskiptaformið.

Virðing fyrir einstaklingnum er grunnstefið og að hugsa um hann sem einstakling en ekki að horfa eingöngu á sjúkdóminn. Hvernig tölum við? Orð eru aðeins 7% af því sem við tjáum, raddblær 38% og líkamstjáning 55%. Sem sagt orð segja ekki allt – heldur 93% í samskiptum okkar gefur því sem við segjum merkingu – hvernig við tjáum virðingu okkar. Við getum tekið sem dæmi þegar einstaklingur spyr sömu spurninga aftur og aftur. T.d. „Hvenær ætlaði Siggi að koma?“ og þú svarar „Hvað er ég búin að segja þér oft að hann kemur á morgun?“ Hvernig tjáir þú þessi samskipti?

Orð hafa auðvitað líka merkingu og það eru nokkur orð og setningar sem eru í raun bannorð í samskiptum við fólk með minnissjúkdóma. T.d. á aldrei að spyrja af hverju? Langar þig í…? Viltu…? eða Hvað segir þú gott? Okkur hættir til að tala við hvert annað í spurnarformi en það getur verið mjög erfitt fyrir fólk með minnissjúkdóma að svara svona spurningum sem hafa oft verið „sjálfsvarandi“ í menningu okkar. Fólk með minnissjúkdóma upplifa oft þessar spurningar alveg bókstaflega og eiga erfitt með að finna viðeigandi svör.

Í bókinni Að endurvekja lífsneistann hjá fólki með heilabilun eftir Jane Verity eru mjög góð og gagnleg ráð fyrir aðstandendur og vina fólks með minnissjúkdóma. Hún fæst hjá Alzheimersamtökunum (alzheimer.is) en hjá þeim samtökum eru margar gagnlegar upplýsingar. Þau reka líka frábæra ráðgjafaþjónustu.

Það má að lokum minna á til gamans að mamma og pabbi, amma og afi hafa í gegnum tíðina lesið sömu söguna aftur og aftur – horft á sömu myndina aftur og aftur með börnum og barnabörnum. Er þá bara ekki allt í lagi að þau heyri aftur og aftur sömu söguna sem fullorðið fólk?

Kristjana María Sigmundsdóttir, félagsráðgjafi MSW