Þorrablót var haldið í Félagsheimilinu Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri 2. febrúar sl. Um 200 manns mættu í sínu fínasta pússi, borðuðu fyrirtaks þorramat frá Hótel Laka sem yfirkokkurinn Ingvar H. Guðmundsson sá um og hlógu að heimatilbúnum skemmtiatriðum þar sem þeir urðu mest fyrir skensi sveitunga sinna sem eitthvað höfðu afrekað á árinu. Þorrablótsnefndin velur svo þá sem sjá um blótið næsta ár og er allur undirbúningur unninn í sjálfboðavinnu.
Eftir matinn og skemmtiatriðin dönsuðu gestir sleitulaust langt fram eftir nóttu við undirleik hljómsveitar kúabóndans úr Landeyjunum, Hlyns Snæs og hljómsveitar. Þessi hljómsveit hefur leikið á Þorrablótum á Klaustri í nokkur ár og greinilegt að nágrannarnir í vestri eru með rétta taktinn fyrir íbúana fyrir austan. Almenn ánægja var með blótið og nú bíða ballskórnir til 16. febrúar þegar næsta Þorrablót verður haldið í Skaftárhreppi en þá eru það Álftveringar og Skaftártungumenn sem bjóða til blóts í Tunguseli.