-4.8 C
Selfoss
Home Fréttir Ef maður vill breytingar þá verður maður að trúa á þær

Ef maður vill breytingar þá verður maður að trúa á þær

0
Ef maður vill breytingar þá verður maður að trúa á þær
Þorbjörg Gísladóttir sveitarstjóri Mýrdalshrepps. Mynd: MHH.

Þorbjörg Gísladóttir var ráðin sveitarstjóri Mýrdalshrepps eftir kosningarnar á síðasta ári. Hún var valin úr hópi tíu umsækjenda. Þorbjörg er viðskiptalögfræðingur að mennt og tók við stöðu sveitarstjóra af Ásgeiri Magnússyni.

Ólst upp þar sem byggðalínan reis á hverjum tíma
Þorbjörg er fædd í Keflavík en ólst upp „hér og þar um landið“, eins og hún segir sjálf, en bjó lengst af sínum uppeldisárum í Þorlákshöfn. Gísli faðir hennar var verkstjóri hjá Rarik og var m.a. einn af þeim sem reistu byggðarlínuna. Þorbjörg segir að á sumrin hafi öllu pakkað saman og flutt í skúrana þar sem móðir hennar eldaði þá ofan í strákana sem voru að vinna með föður hennar. „Með þessu móti fengum við syskinin tækifæri til að kynnast landinu okkar og staðháttum á fjölmörgum stöðum. Ég segi stundum þegar ég er spurð, að ég hafi alist upp þar sem byggðarlínan reis á hverjum tíma,“ segir Þorbjörg.

Þorbjörg er gift Gísla Wiium lögreglumanni og eiga þau þrjú uppkomin börn, tvö tengdabörn og fjögur barnabörn og það fimmta á leiðinni, allt stelpur. „Við Gísli hófum okkar búskapar ár í Ólafsvík og bjuggum þar til 2009, en þá fluttum við suður. Ég starfaði lengst af við bókhald en eftir að börnin fóru að heiman ákvað ég að láta gamlan draum rætast dreif mig í nám, kláraði stúdentinn í fjarnámi og fór síðan í viðskiptafræði í háskólanum á Bifröst og útskrifaðist þaðan 2011.“

„Að námi loknu var ég svo heppin að fá starf sem skrifstofu- og mannauðsstjóri hjá nýsköpunarfyrirtæki sem heitir Rafnar og sérhæfir sig í hönnun og smíði á nýrri hugmynd að bátskili. Fyrirtækið stækkaði mjög hratt og þarna vann og vinnur frábært fólk sem ég lærði mikið af, ásamt öllum þeim ákorunum sem felast í því að að koma fyrirtæki á koppinn.“

Gaman að takast á við ný verkefni
„Ég hef alltaf verið fyrir áskoranir og finnst gaman að takast á við ný verkefni. Eftir átta ára starf hjá Rafnar fann ég að mig langaði að takast á við eitthvað nýtt og ákvað að láta slag standa. Ég bý yfir barnalegri bjartsýni sem ég fékk í vöggugjöf frá henni mömmu minni. Ef maður vill breytingar þá verður maður að trúa á þær og vera tilbúinn að stíga út úr þægindahringnum. Ég vissi ekki nákvæmlega hvað ég vildi gera en ég vildi vera óbundin og sjá hvert það leiddi mig. Svo var það einn morguninn yfir kaffibolla, fljólega eftir kosningar, sem ég sá að þó nokkur sveitarfeálög voru að auglýsa eftir sveitarstjóra. Ég sá að þetta væri eitthvað sem gæti átt vel við mig og að menntun mín og starfsreynsla væri góður undirbúningur fyrir þetta starf. Ég hef hins vegar enga reynslu af sveitarstjórnarmálum en er ófeimin við að leita ráða, og allt í kringum mig er fólk með reynslu og er tilbúið að leiðbeina.“

Ferðamönnunum fylgja miklar áskoranir
Þorbjörg segir að það sé í mörg horn að líta í Mýrdalnum, þar sé mikil gerjun og að fólksfjölgun hafi verið hlutfallslega mest í Mýrdalnum á landsvísu á síðasta ári. „Hingað streyma ferðamenn hvaðanæva að úr heiminum. Skiptir þá engu máli hvort um vetur eða sumar er að ræða. Þessu fylgja óneitanlega áskoranir. Undanfarin ár hafa menn róið lífróður við að skipuleggja götur og lóðir til að takast á við þetta verkefni,“ segir Þorgjörg.

Metnaðarfull framkvæmdaáætlun lögð fram
Hún segir að á næstu árum geti þau meira snúið sér að uppbyggingu innviða. „Það er ekki langt síðan þessi hreppur átti undir högg að sækja og þá voru ekki til peningar til uppbyggingar. Þannig að verkefnin eru mörg. Sveitarstjórn lagði fyrir nokkru fram metnaðarfulla framkvæmdaáætlun fyrir árið 2019. Þar er m.a. gert ráð fyrir að hefja endurbætur á félagheimilinu Leikskálum og Víkurskóla, fara í endurbætur á íþróttavellinum, vatnsveitu og fráveitu. Stærsta verkefnið er þó að fara í stækkun á Íþróttamistöðinni í þeim tilgangi að bjóða Mýrdælingum upp á góða aðstöðu til líkamsræktar. Gert er ráð fyrir að bætt verði við tveimur búningsherbergjum og tækjasal. Þetta stendur þó allt og fellur með því að fá verktaka í vinnu sem hefur ekki verið hlaupið að síðustu misseri.“

Varnargarður og umferðaröryggi
„Vonir okkar standa til þess að í sumar munum við í Vík fá varnargarð sem við höfum verið að berjast fyrir og mun hann þá rísa framundan Víkurkletti. Þetta er gríðarlega stórt mál og skiptir allt samfélagið hér miklu máli bæði í efnahagslegu og öryggislegu tilliti. Umferðaröryggismál í Mýrdalnum hafa líka verið mikið í umræðunni. Við höfum verið að skrifa greinar og funda með ráðamönnum varðandi þessi mál. Við höfum verulega áhyggjur af þróun þessara mála og köllum eftir úrbótum,“ segir Þorbjörg

Það fer vel um okkur í Víkinni
Þorbjörg var spurð hvernig sé að vera flutt í mýrdalshrepp. „Það var vel tekið á móti okkur þegar við komum og við fundum vel fyrir því að við værum velkomin. Það er gott að búa í Vík, svo ég noti fleyg orð kollega míns úr Kópavogi. Hér býr annars vegar rógróið samfélag fólks sem hefur búið hér mann fram af manni, og hins vegar fólk sem hefur heillast af náttúrunni og flutt hingað í leit að tækifærum. Það fer vel um okkur Gísla í Víkinni þó mestur tíminn undanfarna mánuði hafi farið í vinnu. Með hækkandi sól ætlum við að njóta náttúrunnar hér í kring og hlakkar mikið til. Hér er örstutt í allt sem útivistarfólk dreymir um.“

Markmið að komast á sem flest fjöll í kringum mig
Útivist og hreyfing hefur í gegnum tíðina verið helsta áhugamál Þorbjargar. Hún veit fátt skemmtilegra en að fara í gönguferðir í náttúrunni. Hún segir að fjöllin séu alltaf áskorun og nú sé markmiðið að komast á sem flest hér í kringum sig. „Undanfarin ár hef ég bætt hjólreiðum inní útivistina. Fram að þessu hef ég helst verið í götuhjólreiðum en aðstæður hér á svæðiun bjóða frekar upp á utanvegahjólreiðar sem ég ætla svo sannarlega að nýta mér. Ég var um tíma í hestamennsku en hætti því þegar við fluttum suður. Annars reyni ég að eyða sem mestu tíma með fjölskyldunni þegar tækifærin gefast,“ segir Þorbjörg að lokum.