-5 C
Selfoss

Æfingakvöld í Gettu betur milli Borgarholtsskóla og FSu

Vinsælast

Mikill metnaður er lagður í æfingar fyrir spurningakeppnina Gettu betur hjá liði FSu og ekkert til sparað við undirbúning fyrir viðureignina á föstudag. Í gær var æfingakeppni milli Borgarholtsskóla og Fjölbrautarskóla Suðurlands þar sem liðin öttu kappi. Lið FSu keppir við Fjölbrautarskólann í Garðabæ í sjónvarpssal föstudaginn 15. febrúar nk. kl. 20.

„Æfingin var liður í því að undirbúa sig sem best fyrir keppnina og vera við öllu búinn,“ segja keppendurnir. Aðspurð að því hvort þau séu stressuð fyrir keppnina segja þau: „Nei, ekkert sérstaklega. Kannski aðeins með að þetta er í sjónvarpi. Svo eru náttúrulega mun fleiri áhorfendur í sjónvarpi en var í útvarpinu,. Það þarf kannski að venjast því.“

Lið FSu er skipað þeim Sólmundi Magnúsi Sigurðarsyni, Svavari Daðasyni og Guðnýju Von Jóhannesdóttur. Að baki þeim stendur föngulegur hópur en hann skipa Stefán Hannesson og Jakob Heimir Burgel, þjálfarar liðsins, og aðstoðarfólkið Hrafnhildi Hallgrímsdóttur og Hannes Stefánsson. Lið Borgarholtsskóla er skipað Fanneyju Ósk Einarsdóttur, Hnikarri Bjarma Fraklínssyni og Magnúsi Hrafni Einarssyni. Þjálfari liðsins er Ólafur Patrick Ólafsson.

Allar tegundir spurninga voru æfðar í gærkvöldi og ljóst að liðið hefur æft stíft undanfarið. „Við ætlum okkur auðvitað að sigra þessa viðureign sem er framundan. Við erum komin vel á veg í keppninni,“ segir þjálfari liðsins.

Þess má geta að kennari við rafmagnsdeild skólans hefur útbúið rofa sem notaður er til þess að æfa bjölluspurningarnar. Það virkar þannig að sá sem fyrstur ýtir á bjöllurofann kveikir á ljósi sem lætur vita hvaða lið á svarréttinn.

Allir Sunnlendingar eru hvattir til að fylgjast með FSu keppa við FG föstudaginn 15. febrúar nk. kl. 20.

Nýjar fréttir