-5.8 C
Selfoss
Home Fréttir Erfðafesta á Friðarstöðum innleyst

Erfðafesta á Friðarstöðum innleyst

0
Erfðafesta á Friðarstöðum innleyst
Friðarstaðir árið 2012. Ljósmynd: Aldis Hafsteinsdóttir.

Samkomulag hefur verið undirritað á milli Hveragerðisbæjar og ábúenda á Friðarstöðum um að bæjarfélagið leysi til sín eignir ábúenda á jörðinni Friðarstöðum, Hveragerðisbæ. Jörðin sem slík hefur verið í eigu Hveragerðisbæjar frá árinu 1986 en ábúendur setið jörðina á grundvelli erfðafestuákvæðis.

Tilkvaddir matsmenn skiluðu úttektarskýrslu sinni þann 10. ágúst 2016 en samkvæmt henni skyldi Hveragerðisbær greiða ábúanda kr. 63.020.003,- vegna ábúðarlokanna. Af hálfu ábúanda var óskað eftir yfirmati en þeirri kröfu var síðar vísað frá.

Samkvæmt samkomulaginu munu ábúðarlok á jörðinni miðast við 1. júní 2017, en um brottflutning og rýmingu fer eftir ákvæðum ábúðarlaga og skal ábúandi rýma jörðina fyrir 12. júní 2017.

Hið undirritaða samkomulag felur í sér lokasamkomulag um ábúðarlok og gerir hvorugur aðila frekari kröfur á hinn vegna þeirra. Samkomulagið snýr að öllum eignarhlutum og öllum fastanúmerum eigna á jörðunum að engu undanskildu og eiga því ábúendur engin frekari réttindi til jarðanna eða fasteigna á þeim önnur en þau er fram koma í hinum tímabundna leigusamningi um eldra íbúðarhúsið.

Á Friðarstöðum hefur verið stundaður hefðbundinn landbúnaður um árabil en einnig var þar umsvifamikil garðyrkja í gróðurhúsum og muna margir eflaust eftir því að hafa keypt grænmeti í söluskúr Friðarstaða hér á árum áður.

Ræktað land Friðarstaða er um 14,3 ha. en landið í heild 17,2 ha.