Matgæðingur vinunnar er Óskar Logi Sigurðsson og býðuyr hann upp á kjúkling í satay-sósu og franska súkkulaðiköku með karamellusósu.
Ég vil byrja á því að þakka Ársæli svona temmilega mikið fyrir áskorunina. En ég tek þessari áskorun þrátt fyrir það með glöðu geði.
Ég vil byrja á því að gefa ykkur uppskrift að rétti sem ég geri oft enda einfaldur en mjög bragðgóður.
Kjúklingur í satay-sósu:
2-3 kjúklingabringur
1 krukka satay-sósa
2 msk. sojasósa
1/2 dós kókosmjólk
1 dl vatn
1 tsk. rifið engifer
1 lime
Kjúklingurinn er skorinn í strimla og velt upp úr sojasósu. Steikið síðan kjúklinginn á pönnu og takið hann svo af og geymið. Hellið síðan satay-sósunni, kókosmjólkinni, vatninu og engiferinu á pönnuna og látið suðuna koma upp. Smakkið til með sojasósu, pipar og nýkreistum limesafa. Setjið kjúklinginn síðan út í og látið malla þangað til að hann er eldaður í gegn. Berið fram með hrísgrjónum.
Þar sem ég er alltof mikið fyrir eftirrétti og kökur verð ég að koma með eina uppskrift að franskri súkkulaðiköku. Þessa köku geri ég stundum fyrir vini og vandamenn við hátíðleg tækifæri. Hún slær ávallt í gegn.
Frönsk súkkulaðikaka með karamellusósu:
Botn:
200 gr. sykur
4 egg
200 gr. suðusúkkulaði
200 gr. smjör
1 dl hveiti
Hitið ofninn í 180 gráður (blástur). Þeytið egg og sykur vel saman. Bræðið smjörið og súkkulaðið saman við vægan hita. Blandið hveitinu saman við eggjablönduna og bætið síðan súkkulaðinu varlega saman við í lokin. Smyrjið bökunarform og hellið deiginu í formið. Bakið kökuna í 30 mínútur.
Karamellusósa:
1 poki Góa kúlur
1 dl rjómi
Setjið kúlurnar og rjómann í pott og bræðið við vægan hita. Hrærið í sósunni þar til hún verður silkimjúk. Kælið sósuna aðeins áður en þið hellið henni yfir kökuna. Berið fram með vanilluís og jarðarberjum.
Mig langar að skora á stjörnukokkinn Önnu Margréti Káradóttur frá Þorlákshöfn. Hún getur töfrað fram exótíska og framandi rétti eins og ekkert sé. Ég þakka kærlega fyrir mig og verði ykkur að góðu.