Hjúkrunar- og dvalarheimilið Kirkjuhvoll hlaut framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra í lok janúar sl. Sótt var um í framkvæmdasjóðinn vegna endurbóta á vélbúnaði í lyftu. Veittar voru 1.920.000 kr. til verksins eða um 40% af áætluðum kostnaði.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, úthlutaði 495 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra fyrir árið 2018. Framkvæmdasjóður aldraðra starfar á grundvelli laga um málefni aldraðra og er í vörslu heilbrigðisráðuneytisins. Sjóðurinn er fjármagnaður með sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru á aldrinum 16-70 ára, samkvæmt lögum um tekjuskatt. Sjóðnum er ætlað að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um allt land og skal fé úr honum varið til byggingar stofnana fyrir aldraða, þjónustumiðstöðva og dagdvala, að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar á slíku húsnæði og til viðhalds húsnæðis dagdvalar-, dvalar- og hjúkrunarheimila, auk annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu.