Forvarnir, lýðheilsa, samgöngumál og húsnæðis- og skólamál voru meðal annars til umræðu á síðasta fundi Ungmennaráðs Suðurlands.
Ungmennaráð Suðurlands hefur verið starfandi vel á þriðja ár en Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) halda utan um starf ráðsins. Í ráðinu eiga 15 fulltrúar sæti, einn frá hverju sveitarfélagi á Suðurlandi, það eru 15 aðalmenn og 15 til vara. Ráðið kemur saman tvisvar á ári og oftar ef þurfa þykir. Þegar ungmennaráðið kemur saman er auk fundasetu m.a. lögð áhersla á fræðslu, liðsheildarvinnu og hópefli.
Á síðasta fund ráðsins kom Sabína Steinunn Halldórsdóttir landsfulltrúi Ungmennafélags Íslands inn með fræðslu um fundasköp og ræðumennsku sem mun án efa nýtast ungmennunum vel í framtíðinni. Magnús Guðmundsson verkefnastjóri var með hópefli og liðsheildarvinnu sem er nauðsynleg þegar breiður hópur fólks vinnur saman.
Fulltrúar ráðsins sækja ráðstefnur fyrir hönd landshlutans og einnig hafa þau flutt erindi á ýmsum fundum eða ráðstefnum. Þá hafa fulltrúar ráðsins einnig verið með erindi á síðustu tveimur ársþingum SASS.
Ný stjórn var kjörin á síðasta fundi ráðsins. Nýr formaður er Jón Marteinn Arngrímsson frá Grímsnes- og grafningshreppi, nýr varaformaður er Nói Mar Jónsson frá Hrunamannahreppi og nýr ritari er Jana Lind Ellertsdóttir frá Bláskógabyggð.
Unnið í þremur málefnahópum
Á fundi ungmennaráðsins var ákveðið að vinna í þremur málefnahópum og skiptust þeir svona; Húsnæðis- og skólamál, samgöngu- og samfélagsmál og lýðheilsu- og forvarnarmál. Bókanir ráðsins voru fjölmargar og ef skoðaðar eru þær sem fjalla um húsnæðis- og skólamál þá eru áberandi áhyggjur ráðsins af vöntun á íbúðarhúsnæði fyrir ungmenni á Suðurlandi og þá sérstaklega varðandi heimavist og stúdentagarða á Selfossi. Ráðið hvetur einnig viðeigandi aðila til að bæta aðgengi að námsráðgjöf og efla fjármálalæsi í grunn- og framhaldskólum á Suðurlandi.
Almenningssamgöngur og veghald
Ráðið fjallaði um samgöngu- og samfélagsmál og þar bar hæst áhyggjur af vegakerfinu á Suðurlandi. Ráðið skorar á SASS og Vegagerðina að vinna að bættu umferðaröryggi og bættu veghaldi, m.a. snjómokstri. Ráðið telur einnig að bæta þurfi fræðslu til erlendra ökumanna sem koma til landsins um hinar ýmsu veður- og vegaðstæður sem geta skapast á vegum landsins. Almenningssamgöngur skipta ungmenni á Suðurlandi miklu máli og skorar ráðið á SASS og Strætó að efla þjónustustig almenningssamgangna á Suðurlandi meðal annars með því að hafa vagna með salernum á lengri leiðum og tryggja að þeir hafi ávallt virkt netsamband. Jafnframt telur ráðið verðskrá Strætó á Suðurlandi of háa og skorar það á SASS og sveitarfélögin á Suðurlandi að bjóða upp á almenningssamgöngur á mun betra verði enda myndi það hvetja til betri nýtingar á ferðum Strætó á Suðurlandi. Ráðið telur brýnt að komið sé til móts við nemendur og þá sem sækja íþrótta- og tómstundastarf á milli sveitarfélaga með fleiri möguleikum á greiðslufyrirkomulagi. Mikill kostur væri að geta greitt fyrir einn mánuð í einu í staðin fyrir greiðslufyrirkomulagið sem er í dag þar sem greiða þarf fyrir eina önn í einu.
Vilja gera miklu betur og meira í forvarnar- og lýðheilsumálum
Ungmennaráðið hvetur til aukinnar jafningjafræðslu og fræðslu um kynjafræði í grunn- og framhaldskólum á Suðurlandi. Ráðið bendir þá forvörn sem er í hreyfingu og hvetur m.a. sveitarfélögin á Suðurlandi til að niðurgreiða æfingagjöld til barna og ungmenna. Einnig bendir ráðið á að gjald í líkamræktarstöðvar er mjög hátt fyrir ungmenni og hvetur ráðið stöðvarnar og/eða þau sveitarfélög sem reka slíkar stöðvar til að koma betur til móts við þennan hóp.
Ráðið hvetur og brýnir sveitarfélögin á Suðurlandi, HSu og heilbrigðisráðherra til að bæta úrræði fyrir ungt fólk á Suðurlandi sem á við fíknivanda að stríða. Þá telur ráðið ekki síður mikilvægt að fylgja eftir þeim ungmennum sem hafa lokið meðferð, með áframhaldandi stuðningi. Ráðið bókaði m.a. að efla þurfi fræðslu og forvarnir um fíkniefnavandann á Suðurlandi og hvetur til fræðslu í skólum landshlutans.
Fulltrúar úr stjórn SASS funda með ráðinu
Fulltrúar úr stjórn SASS og framkvæmdastjóri samtakanna komu á síðasta fund ungmennaráðsins sem haldinn var á Selfossi. Farið var yfir fundagerð ráðsins og bókanir. Í framhaldinu átti ráðið gott samtal við fulltrúa SASS.
Ungmennaráð Suðurlands hefur vakið mikla athygli og hafa aðrir landshlutar sýnt ráðinu áhuga. Í síðasta tölublaði Sveitarstjórnarmála sem Samband íslenskra sveitarfélaga gefur út er m.a. ítarleg grein um ráðið og störf þess frá upphafi. Á heimasíðu SASS er hægt að finna fundagerðir ráðsins og Handbók ungmennaráða auk myndbanda sem unnin voru af ungmennaráði Árborgar í samstafi við SASS. Næsti fundur ráðsins verður haldinn í mars 2019.