Í dag var Hamar, nýtt verknámshús Fjölbrautaskóla Suðurlands, formlega vígt. Við það tækifæri flutti m.a. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálamálaráðherra, ávarp þar sem hann lýsti ánægju sinni með tilkomu hússins. Þá blessaði sr. Guðbjörg Arnardóttir sóknarprestur við Selfosskirkju húsið.
Í Hamri fer fram kennsla í tré-, málm-, raf- og háriðnum. Einnig kennsla í tækniteiknun og bóklegum fögum auk námskeiða í tölvuhönnun og sértækum iðnum.
Að byggingu hússins komu, auk ríkisins, Sveitarfélagið Árborg, Héraðsnefnd Árnesinga (án Árborgar), Héraðsnefnd Rangæinga og Héraðsnefnd Vestur-Skaftfelinga.
Hönnunarútboð var haldið í júní 2013 og komu fram 24 tillögur. Fyrir valinu varð hönnun frá Tark teiknistofu sem hannaði húsið auk aðkomu undirverktaka, verkfræðistofa og fleiri aðila.
Fyrsta skóflustunga að byggingunni var tekin 8. júlí 2015. Nýja viðbyggingin er um 1700 m² en alls er húsnæði í Hamri 2.876 m². Kostnaður við byggingu hússins nam 1.272 milljónum króna. Ríkið greiðir 60% en hinir eignaraðilarnir 40%.
Með nýja húsnæðinu og nýjum búnaði er orðin bylting í aðstöðu nemenda og starfsfólks Fjölbrautaskólans. Eftir breytingarnar við nýju verknámsdeildina er FSu orðinn einn best búni framhaldsskóli landsins í þeim verknámsgreinum sem þar eru kenndar.