-6.1 C
Selfoss

Hannes Jón verður nýr þjálfari Selfoss

Vinsælast

Hannes Jón Jónsson mun taka við sem þjálfari meistaraflokks Selfoss eftir þetta keppnistímabil, en hann skrifaði undir þriggja ára samning við Selfoss nú í gær.  Auk þess að þjálfa meistaraflokk mun hann verða framkvæmdastjóri handknattleiksakademíunnar sem deildin rekur ásamt Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Hannes Jón er uppalinn hjá Val en lék m.a. með Selfoss á árunum 2001-2003. Hann fór út í atvinnumennsku og lék með liðunum Ajax København og Fredericia í Danmörku, Elverum í Noregi og Hannover-Burgdorf og THSV Eisenach í Þýskalandi. Auk þess á hann 36 leiki að baki með íslenska landsliðinu. Frá árinu 2015 hefur hann verið þjálfari West Wien í Austurríki.

Handknattleiksdeild Selfoss er gríðarlega ánægð með að hafa náð samningi við Hannes sem mun halda áfram því metnaðarfulla starfi sem hefur verið í gangi á Selfossi undanfarin ár. Deildin er jafnframt ánægð að geta tilkynnt þessa ráðningu með góðum fyrirvara sem sýnir metnað til að halda stöðugleika og áframhaldandi uppbyggingu í starfinu.

Við undirritun samnings sagði Hannes Jón að starfið á Selfossi væri gríðarlega spennandi og mikil áskorun sem hann hlakkar til að takast á við og bætti við: „Það er greinilegt að þar hefur margt mjög gott verið gert síðastliðin ár og hugmyndafræðin í uppbyggingarstarfinu er að skila leikmönnum í fremstu röð. Félagið leggur metnað í að halda áfram að gera vel,  það verður gaman að fá að taka þátt í því.“

Nýjar fréttir