Í samstarfi við grunnskólana í Árborg sótti skólaþjónusta Árborgar um styrk til Lýðheilsusjóðs til gerðar og flutnings fræðsluerindis um kvíða og annan tilfinningavanda fyrir nemendur í 7. til 10. bekk í öllum grunnskólum sveitarfélagsins. Mikil umræða hefur verið um vaxandi kvíða og vanlíðan hjá börnum og ungmennum og var verkefninu ætlað að bregðast við ákalli skólasamfélagsins eftir aukinni geðheilbrigðisfræðslu til nemenda, foreldra þeirra og starfsfólk skóla. Lucinda Árnadóttir, yfirsálfræðingur hjá skólaþjónustu Árborgar sá um fræðsluna sem fram fór nú á haustönn. Dagskráin hafði samband við Lucindu til að forvitnast um verkefnið.
Hvað var helst lögð áhersla á í fræðslunni?„Áhersla var lögð á umfjöllun um eðli og helstu einkenni kvíða. Hvernig áhyggjur geta haft áhrif á líðan og hvaða aðferðir geti dregið úr áhyggjum og bætt líðan. Fjallað var um hvernig þættir eins og ónægur svefn og óhófleg skjánotkun geti haft neikvæð áhrif á líðan en rannsóknir sýna tengsl milli aukinnar skjánotkunar, of lítils svefns og kvíða- og vanlíðunareinkenna hjá börnum og ungmennum.“
Hverjir fengu fræðslu? „Það voru nemendur í 7. til 10. bekk í öllum grunnskólum sveitarfélagsins og starfsfólk skóla fengu fræðslu á skólatíma. Fræðslan fór fram í hverjum bekk fyrir sig og þannig gafst nemendum tækifæri til að spyrja spurninga og taka umræðuna að erindi loknu. Foreldrum nemenda í hverjum skóla fyrir sig var síðan boðið á erindi að kvöldi dags þar sem fjallað var um þá fræðslu sem nemendur og starfsfólk skóla höfðu fengið um sama efni.“
Hvernig var þessu tekið af þeim sem hlutu fræðsluna? „Óhætt er að segja að fræðslunni hafi verið mjög vel tekið. Bæði nemendur og starfsfólk skóla tóku afar vel á móti mér. Nemendur voru áhugasamir og duglegir að spyrja spurninga um efni fræðslunnar. Margir hafa komið á framfæri ánægju sinni með framtakið bæði foreldrar og starfsfólk skóla, og allir á einu máli um mikilvægi þess að aukið verði við slíka fræðslu um geðheilbrigði í skólunum til nemenda og foreldra.
Verður verkefninu haldið áfram? „Skólaþjónustan hefur í samráði við skólastjórnendur ákveðið að verkefnið muni halda áfram. Ráðgert er að á hverju skólaári muni sálfræðingar skólaþjónustu veita 7. bekkjar nemendum í grunnskólum Árborgar og starfsfólki skóla fræðslu á skólatíma og foreldrum þeirra jafnframt boðið á erindi um sama efni.“