-5 C
Selfoss

Af litlum neista – starfsþróun í grunnskólum Árborgar

Vinsælast

Á skólaárinu 2018–2019 gefst kennurum í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri, Sunnulækjarskóla og Vallaskóla tækifæri til að vinna að skólaþróunarverkefnum sem tengjast hugmyndinni um skólann sem lærdómssamfélag og fá öll verkefnin styrk úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla.

Kennarar velja sér eitt af þremur viðfangsefnum til að þróa, þau eru innleiðing eða þróun teymiskennslu, leiðir til að bæta bekkjar- og skólabrag og efling foreldrasamstarfs.

Verkefnið var sett af stað með málþingi í Sunnulækjarskóla föstudaginn 17. ágúst 2018. Umsjónarmenn verkefnisins eru Anna Kristín Sigurðardóttir og Ingvar Sigurgeirsson, prófessorar á menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Verkefnið er unnið í fagteymum í hverjum skóla en nokkrum sinnum yfir veturinn koma allir saman til að deila þekkingu og reynslu og til að hlýða á erindi. Nú í byrjun árs eða fimmtudaginn 3. janúar sl. komu allir kennarar skólanna og fleiri starfsmenn saman í Sunnulækjarskóla á afar vel heppnuðum starfsdegi þar sem lærdómsandinn sveif yfir vötnum. Nanna Christiansen, verkefnastjóri á Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, fjallaði um leiðir til að efla samstarf við foreldra Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, kennsluráðgjafi, fjallaði um árangursríka teymiskennslu og Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, kenndi ýmsar leiðir til að efla samskipti og bekkjarbrag. Þetta stóra starfsþróunarverkefni, sem tekur mikið mið af áhuga hvers kennara, heldur áfram út skólaárið og lýkur svo með uppskeruhátíð í júní næstkomandi.

 

Nýjar fréttir