-8.1 C
Selfoss

Nýtt fólk – nýjar lausnir í Árborg

Vinsælast

Nú um áramót eru liðnir sex mánuðir frá því að gengið var til sveitarstjórnarkosninga. Í kjölfar þeirra var myndaður nýr meirihluti í Sveitarfélaginu Árborg sem samanstóð af fulltrúum fjögurra framboða, Á-lista Áfram Árborg, B-lista Framsóknar og óháðra, M-lista Miðflokksins og S-lista Samfylk-ingarinnar.

Öll þessi framboð lögðu mikla vinnu í undirbúning kosninganna og baráttuna sjálfa og uppskáru í samræmi við það. Í meirihlutaviðræðunum varð strax ljóst að þar var samankominn sterkur hópur fólks sem hugsar í lausnum, er tilbúinn til að leggja mikla vinnu á sig fyrir sveitarfélagið og standa vörð um rekstur þess. Markmiðið er að veita fyrirmyndarþjónustu og bjóða upp á bestu mögulegu aðstöðu á sviðum lýðheilsu, menntunar, menningar, velferðarþjónustu og stjórnsýslu. Á þessum stutta tíma sem liðinn er frá kosningum hefur samstarf innan meirihlutans styrkst og þroskast með hverjum deginum sem líður.

Ör stækkun kallar á breytt skipulag
Það hefur ekki farið fram hjá neinum sú gríðarlega fjölgun íbúa sem átt hefur sér stað í sveitarfélaginu á undanförnum misserum. Á síðasta ári fjölgaði íbúum um t.a.m. 5,3%. Þegar sveitarfélag stækkar svo hratt þá reynir það mjög á alla innviði samfélagsins sem og stjórnsýslu. Þrátt fyrir aukið álag þá veitir sveitarfélagið íbúum sínum almennt góða þjónustu.

Á haustdögum var samið við Harald Líndal sérfræðing og fyrrverandi bæjarstjóra í Hafnarfirði um að gera úttekt á stjórnskipulagi og rekstri sveitarfélagsins. Hugmyndin er að úttektin verði nýtt sem leiðarvísir að bættri stjórnsýslu í Árborg.

Það er markmið okkar að rekstur sveitarfélagsins sé í jafnvægi og miði að því að hámarka nýtingu þeirra fjármuna sem kjörnum fulltrúum er treyst fyrir af íbúunum til reksturs og fjárfestinga. Með betri áætlanagerð, auknu eftirliti og öflugra aðhaldi með rekstri sviða og deilda, aukast líkur á að markmið um markvissa og stefnufasta fjármálastjórn náist. Við erum sannfærð um að með markvissum og skynsamlegum skipulagsbreytingum í átt að nútíma stjórnsýsluháttum megi ná meiri árangri.

Fjárfestingar til framtíðar
Árborg er langstærsta sveitarfélagið á Suðurlandi og á sem slíkt að vera í fararbroddi sveitarfélaga á svæðinu í að bjóða íbúum sínum upp á bestu mögulegu aðstöðu á öllum sviðum. Ljóst er að uppbygging á nauðsynlegum innviðum samfélagsins er uppsafnaður og áleitin sú spurning af hverju ekki var unnið að uppbyggingunni jafnt og þétt á undanförnum árum í takt við fyrirsjáanlega íbúafjölgun.

Strax í vor var ljóst að margar framkvæmdir þyldu enga bið. Með þá staðreynd í huga lögðum við af stað í þá vinnu að gera fjárfestingaráætlun sem myndi vinna á uppsafnaðri þörf og vinna í haginn fyrir framtíðina. Afsprengi þeirrar vinnu birtist síðan í mjög metnaðarfullri fjárfestingaráætlun fyrir árin 2019 til 2022 sem lögð var fram og samþykkt í bæjarstjórn með meirihluta atkvæða þann 13. desember sl. Fjárfestingaráætlunin er svar okkar við þeirri stöðu sem sveitarfélagið er komið í. Stöðu þar sem mikilli uppsafnaðri fjárfestingarþörf verður mætt með miklum og þörfum fjárfestingum sem munu nýtast íbúum vel til skemmri og lengri tíma.

Nýtt hverfi í landi Bjarkar á Selfossi en þar verður m.a. byggður nýr skóli.

Fjárfestingaráætlunin gerir ráð fyrir að hafin verði bygging á nýjum leikskóla á nýju ári, auk þess sem að farið verði af stað í gatnagerð í Bjarkarstykki hvar fyrsti áfangi nýrrar skólabyggingar verður reist og tekin í notkun haustið 2021.

Fyrirhugurð íþróttamannvirki á íþróttavallarsvæðinu við Engjaveg á Selfossi.

Blásið verður til sóknar í uppbyggingu á íþróttamannvirkjum. Á vormánuðum verður tekin skóflustunga að tæplega 6.300 m² fjölnota íþróttahúsi á íþróttasvæðinu við Engjaveg sem mun innihalda frjálsíþróttaaðstöðu af bestu gerð, hálfan knattspyrnuvöll 68 x 54,5 m, aðstöðu fyrir göngu- og hlaupahópa auk þess sem hægt verður að halda ýmiskonar viðburði og sýningar í húsinu. Húsið, sem verður bylting fyrir íþróttaiðkendur í sveitarfélaginu, verður síðan auðveldlega hægt að stækka síðar í 10.000 m² með knattspyrnuvelli í fullri stærð. Aðrir áfangar íþróttamiðstöðvarinnar, sem sátt er um hjá meirihluta bæjarstjórnar og stjórn ungmennafélagsins að byggja upp á næstu 10 til 15 árum, munu innihalda aðstöðu fyrir flest allar íþróttagreinar og verða að lokum nálægt 22.000 fermetrum að stærð.

Umhverfismati vegna nýrrar hreinsistöðvar við Geitanesflúðir lýkur næstkomandi haust. Í framhaldinu verður hægt að fara í langþráðar framkvæmdir við hreinsistöðina og koma henni í gagnið sem allra fyrst. Aukinn kraftur verður einnig settur í heita- og kaldavatnsöflun til að mæta auknum íbúafjölda og starfsemi í sveitarfélaginu. Að auki tekur sveitarfélagið þátt í byggingu með ríkisvaldinu á löngu tímabæru nýju hjúkrunarheimili sem mun rísa við HSU en þar munu framkvæmdir hefjast með vorinu.

Að framan töldu má sjá að margt mun gerast í framkvæmdum á næstu misserum og árum að meðtöldum öllum öðrum framkvæmdum sem sveitarfélagið mun ráðast í svo byggðin megi þróast með eðlilegum hætti til framtíðar. Við í meirihluta bæjarstjórnar höfum sammælst um að vinna ötullega að því að farið verði í þær nauðsynlegu framkvæmdir sem settar eru fram í fjárfestingaráætluninni. Markmiðið er að koma sveitarfélaginu á næstu árum í það horf að íbúar Árborgar geti verið stoltir af aðstöðu okkar og mannvirkjum sem munu á endanum prýða sveitarfélagið í lok kjörtímabilsins, vorið 2022.

Framtíðin er hér
Það er markmið okkar að það eigi að vera eftirsóknarvert að búa í Árborg. Það er hlutverk þeirra sem stjórna sveitarfélaginu hverju sinni að búa sem allra best að þjónustu við íbúana og atvinnurekstri í sveitarfélaginu. Þjónusta sveitarfélagsins á að vera aðgengileg og skilvirk og öðrum sem reka þjónustu í sveitarfélaginu góð fyrirmynd og fordæmi. Við ætlum að byggja upp og viðhalda samfélagi sem tekur mið af þörfum íbúanna, tryggir lífsgæði og velferð allra.

Það er stefna okkar að gera umhverfismálum hærra undir höfði en gert hefur verið á undanförnum árum. Við ætlum að vera öðrum fyrirmynd með því að sýna ábyrgð í þessum málaflokki gagnvart íbúum og gestum sem sækja okkur heim. Við ætlum að auka samstarf við íbúa og fyrirtæki með það að markmiði að hvetja hvern og einn til þess að auka ábyrgð þeirra gagnvart umhverfinu. Við lítum á átak í umhverfismálum sem eitt af okkar stóru tækifærum til sóknar. Það er okkar skoðun að ásýnd byggðarinnar okkar endurspegli metnað sveitarfélagsins. Markvisst samstarf sveitarfélagsins, íbúanna og fyrirtækja í umhverfismálum miðar að aukinni ábyrgð og frumkvæði gagnvart sínu nærumhverfi. Það gengur t.d. ekki að gömul bílhræ og brotajárn liggi eins og hráviði inn á einkalóðum engum til gagns, á því þarf að taka af alvöru.

Skólarnir í sveitarfélaginu þykja vera í fremstu röð á landsvísu. Það er verðugt verkefni að standa undir því orðspori og halda áfram að sækja fram í menntamálum. Í nemendunum liggur framtíð samfélagsins og því er eitt stærsta verkefni bæjaryfirvalda hverju sinni að tryggja að aðbúnaður barna og unglinga sé eins góður og hugsast getur.

Með því að starfrækja virk hverfisráð í hverjum byggðarkjarna fyrir sig vonumst við eftir þátttöku íbúa í ákvarðanatökum um mótun og þróun samfélagsins til framtíðar.
Það er enginn óvissa hjá okkur um hvaða leið við ætlum að fara til þess að skapa sveitarfélag í fremstu röð. Vonandi eru íbúar sveitarfélagsins tilbúnir að fylgja okkur í þeirri vegferð með það að mark-miði að auka velsæld og ánægju í sveitarfélaginu.

Með ósk um gleðilegt nýtt ár!

Sigurjón Vídalín Guðmundsson – Áfram Árborg
Helgi S. Haraldsson – Framsókn og óháðum
Tómas Ellert Tómasson – Miðflokki
Arna Ír Gunnarsdóttir – Samfylkingu
Eggert Valur Guðmundsson – Samfylkingu

Nýjar fréttir