Þann 8. febrúar sl. samþykkti sveitarstjórn Flóahrepps nýtt deiliskipulag fyrir Bitru, nýja þjónustumiðstöð, sem fyrirhugað er að reisa vestan við gatnamót Skeiðavegar og Suðurlandsvegar. Tillagan hefur verið send til Skipulagsstofnunar og er þar til umfjöllunar.
Starfsemi nýju þjónustumiðstöðvarinnar verður þjónusta við vegfarendur og gesti. Þar verður veitingasala með veislusölum, auk aðstöðu til norðurljósaskoðunar innanhúss og utan og minni háttar eldsneytissala í sjálfsafgreiðslu. Fullbyggð verður þjónustumiðstöðin um 5.000 fermetrar að stærð.
Byrjað verður á 1.000 fermetra byggingu sem verður komið í rekstur á meðan restin verður byggð. Samhliða þjónustumiðstöðinni verður byggð 750 fermetra afþreyingarsetur og nútímaleg upplýsingamiðstöð. Einnig er á teikniborðinu að byggja 1000 fermetra markaðstorg þar sem framleiðendur í héraði geta haft aðstöðu og beinan aðgang að markaði. Allt verður þetta byggt fallega inn í landslagið á vistvænan hátt.
Uppfært 10.3.:
Rétt er að taka fram að breyting á deiliskipulagi fyrir Bitru, nýja þjónustumiðstöð, var samþykkt í sveitarstjórn Flóahrepps með þremur atkvæðum gegn tveimur. Tveir sveitarstjórnarmenn greiddu atkvæði gegn tillögunni og bókuðu eftirfarandi:
Við undirritaðar sjáum okkur ekki fært að samþykkja deiliskipulag að Bitru – þjónustumiðstöð í ljósi þess að um þekkt jarðsprungusvæði er að ræða. Fyrir breytingu aðalskipulags 4/9 2013 hafði allt jarðrask verið bannað á umræddu svæði. Ætlað er að á svæðinu verði geymslur fyrir olíur og bensín. En athygli er vakin á því að um grannsvæði, fjarsvæði, vatnsverndar er að ræða.
Svanhvít Hermannsdóttir, Rósa Matthíasdóttir.
Fundargerð sveitarstjórnar má sjá hér: