Skipulag nýja miðbæjarins á Selfossi var auglýst síðastliðið sumar. Nokkar athugasemdir komu, flestar tæknilegs eðlis, og sneru að lóðamörkum og lóðum sem aðilar eiga inni á svæðinu eða sem liggja að deiliskipulagssvæðinu. Viðræður við aðra lóðarhafa hafa farið fram til að skýra þar lóðamörk og réttindi og skyldur. Að sögn Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Árborgar, er það langt komið.
„Væntanlega kemur deiliskipulagið til afgreiðslu innan tíðar. Það er síðan verið að vinna í fjármögnun á þessu verkefni. Ég hef ekki nákvæma stöðu á því í dag, en við munum fara yfir það fljótlega með þeim aðilum sem standa að verkefninu. Það má því segja að þetta tosist áfram. Það er aðeins eftir í skipulagsvinnunni og svo þarf auðvitað að klára þessa fjármögnun áður en framkvæmdir geta farið af stað,“ segir Ásta.