-6.1 C
Selfoss
Home Fréttir Áherslan er að þetta verði ekki bara nýr og breyttur golfvöllur heldur líka fjölnota alhliða útivistarsvæði

Áherslan er að þetta verði ekki bara nýr og breyttur golfvöllur heldur líka fjölnota alhliða útivistarsvæði

0
Áherslan er að þetta verði ekki bara nýr og breyttur golfvöllur heldur líka fjölnota alhliða útivistarsvæði
Edwin Roald, golfvallahönnuður.

Edwin Roald golfvallahönnuður hefur undanfarin misseri unnið að hönnun og breytingum á Svarfhólsvelli á Selfossi. Edwin hefur starfað við golfvallahönnun frá aldamótum og vinnur í dag í fimm löndum; á Íslandi, í Bandaríkjunum, Rússlandi, Tékklandi og í Færeyjum.
Edwin segir að verkefnið á Svarfhólsvelli sem verið er að vinna að á Selfossi sé í raun þríþætt. Það fyrsta tengist færslu þjóðvegarins norður fyrir Selfoss og nýrri brú. Síðan eru það áform um uppbyggingu og stækkun golfvallarins og að festa hann í sessi á núverandi stað og svo í þriðja lagi ný til komið verkefni sem felst m.a. í því að taka við jarðvegi úr húsgrunnum og götum á Selfossi og nota í landuppbyggingu á svæðinu.

Nýr þjóðvegur og brú á Ölfusá hafa áhrif
„Það fyrsta sem kemur til eru áform um hjáveitu þjóðvegarins á Selfossi og nýja brú á Ölfusá. Golfvöllurinn hér þarf að aðlagast þessum nýja vegi. Hann klippir af tvær brautir og vegna keðjuverkunar, þ.e. vegna þess hvernig brautirnar eiga að mynda óslitna keðju, þá hefur þetta áhrif á þrjár brautir. Eftir samkomulag við Vegagerðina sem náðist í haust erum við núna búin að finna nýjum þremur brautum stað þannig að það megi samt á meðan þær eru í gerð spila núverandi völl nánast óbreyttan, án þess að fólk verði fyrir óþægindum. Æfingasvæðið færist einnig til og annað þess háttar,“ segir Edwin.

Aukið landrými til stækkunar
Golfklúbbur Selfoss hefur langi haft í hyggju að festa sig í sessi á svæðinu á Svarfhóli. Edwin segir að það hafi verið stór stund í sögu klúbbsins þegar samningur þess efnis við Sveitarfélagið Árborg var gerður í vor. Hann feli í sér ákveðið landrými til stækkunar. „Það er þannig með marga velli sem eru níu holur að það er oft horft til þess að stækka þá, oftast upp í átján holur. Klúbburinn vill það en til þess þarf hann að njóta stuðnings hjá sínu sveitarfélagi eins og önnur íþróttafélög með íþróttamannvirki. Ekki síst í þessu tilfelli, því að klúbburinn leggur áherslu á að þetta verði ekki bara golfvöllur, heldur að nýr, breyttur og stækkaður völlur verði leggi grunn að nýju, fjölnota, alhliða útivistarsvæði. Það hljómar kannski einkennilega í eyrum margra því við erum vön því að sjá þessar skýru línur, golfvöll hér, útivist þarna, fótbolta þarna, hestamennsku hér. Það eru til góð dæmi, aðallega á Norðurlöndunum og annars staðar á landinu, um vel heppnaða svona blöndu, jafnvel með reiðgötum, stígum til göngu, hjólreiða eða hlaups, fuglaskoðun o.fl. Þetta viljum við gera.“

Umframjarðvegur notaður í landmótun
„Þetta leiðir inn í þriðja atriðið sem er nýtilkomið verkefni þar sem Golfklúbburinn tekur á móti umframjarðvegi úr húsgrunnum og gatnagerð, m.a. úr nýja miðbænum. Oft vill þessi jarðvegur verða að einhverju fjalli einhvers staðar sem þá verður lítill sómi af og kannski reynist erfitt að ganga almennilega frá. Í þessu tilviki nýtist hann í landmótun sem verður hluti af golfvellinum og útivistarsvæðinu, til fegrunar. Golfvöllurinn er svo vel staðsettur að vegalengdin frá flestum af þessum byggingasvæðum styttist. Í þeim verkefnum ætti því að verða sparnaður sem ætti þá eftir atvikum að skila sér til Árborgar og/eða viðkomandi þróunaraðila sem stendur að viðkomandi verkefni. Þá er meiningin að koma á samstarfi við þessa aðila þar sem þessi ávinningur skilar sér með einhverjum hætti að hluta til til golfklúbbsins. Þarna verða samlegðaráhrif. Golfklúbburinn tekur óhjákvæmilega smá áhættu líka af því að umfang á jarðvinnunni eykst stórlega og það er ákveðin hætta á því að fólk veigri sér við að koma og spila ef ekki er vel að þessu staðið. Við erum með ákveðnar hugmyndir um lausnir á þessu og fórum yfir það á fundinum sem haldinn var samhliða aðalfundi klúbbsins sl. fimmtudag. Þar sýndum við fram á að það er ekkert að óttast, bæði fyrir þá sem eru í klúbbnum og aðkomumenn. Þó fólk sjái og heyri kannski í einhverjum vélum út undan sér þá er það liður í mjög flottri framtíðarsýn, stórglæsilegum golfvelli og útivistarsvæði.“

Fyrstu brautirnar tilbúnar 2021
Aðspurður um tímalínu verkefnisins segir Edwin: „Samningur golfklúbbsins við Vegagerðina er þannig að klúbburinn þarf að vera farinn af fyrirhuguðu vegsvæði í lok sumars 2022. Nú er allt kapp lagt á að það náist og útlitið er þannig í dag, og stefna klúbbsins, að þessar nýju brautir sem koma í staðinn fyrir þessar sem verða undir þjóðveginum verði tilbúnar til notkunar einhvern tíma á sumrinu 2021. Ef stuðningur fæst, fjárhagslegur og á aðra lund, frá sveitarfélaginu og jafnvel fleirum, til að stækka völlinn umfram þetta, þá sjáum við möguleika á því að vinna í þriggja til fjögurra brauta áföngum á tveggja ára fresti þ.e.a.s. 2023 og 2025 og svo yrðu í lokin væntanlega tvær holur sem lifa eftir. Þær gætu þá verið teknar í notkun 2027. Auðvitað eru öll svona plön langt fram í tímann dálitið viðkvæm, en þetta er hugmyndin.“

Golfvöllur í frábæru ástandi
Hvernig er staða Svarfhólsvallar í dag í íslensku samhengi og kannski líka í erlendu ljósi? Hver verður staða vallarins ef þessar hugmyndir verða að veruleika?
„Núna er það þannig að Golfklúbbur Selfoss hefur alveg sérstaklega gott starfslið og völlurinn hefur verið í frábæru ástandi síðustu árin, fyrir utan afmörkuð tilfallandi atvik sem hafa með vetrarskaða og kalskemmdir að gera, eins og víða er. Gagnvart grasgæðum, sem skipta miklu máli, hefur völlurinn verið frekar hátt skrifaður á landsvísu undanfarin ár. Hann er á mjög skemmtilegum stað meðfram Ölfusánni en líður alveg svakalega fyrir raflínurnar sem liggja um hann. Þær hafa neikvæð áhrif á upplifun fólks. Það aftrar vellinum frá því að verða svona „Destination“ eða áfangastaður, hvort heldur fyrir innlenda eða erlenda gesti. Komur erlendra gesta á íslenska golfvelli hafa verið að aukast um 30% á hverju ári núna síðustu ár. Vellirnir eru farnir að finna vel fyrir því. Þá komum við kannski að möguleikunum. Nú er komið samkomuleg um að fella hluta af línunum niður á stuttum kafla, Það er fyrsti áfanginn í því að losna við einhverjar af þessum raflínum. Svo liggur þessi þróun, þ.e. stækkun vallarins, að mjög aðlaðandi svæði til norðurs meðfram bökkum árinnar. Ef okkur tekst það sem okkur langar að gerae. að kalla fram fegurðina og sérkennin í landinu, þá getur þessi völlur orðið mjög áhugaverður, ekki bara fyrir Selfyssinga heldur aðra landsmenn og einnig erlenda gesti. Golfferðaþjónustu á Íslandi má leggja þannig upp að fólk komi ekki endilega sérstaklega til Íslands til að spila golf, heldur að það sé virkilega áhugavert að nota golf til að ná athygli fólks á landi og þjóð. Þó golf sé almenningsíþrótt á Íslandi, þá eru erlendir kylfingar oft velmegandi fólk sem hefur fjármuni á milli handanna til að verja hér á landi. Það er eitt af markmiðum okkar að Selfoss komist á kortið hjá þessum kylfingi sem er á faraldsfæti um landi,“· segir Edwin.