-6.1 C
Selfoss

Söngvakeppni Árborgar verður 31. mars næstkomandi

Vinsælast

Söngvakeppni milli fyrirtækja í Árborg verður haldin í fyrsta skipti föstudagskvöldið 31. mars nk. Fulltrúar frá tíu fyrirtækjum munu etja kappi og það atriði sem hlýtur flest atkvæði sérstakrar dómnefndar, sem í sitja landsfrægir aðilar, hlýtur glæsilegan farandgrip í verðlaun. Auk þess verða veitt vegleg verðlaun fyrir flottasta búninginn, bestu stemningu stuðningsmanna og fleira.

„Það er mikill áhugi fyrir þessari keppni hjá fyrirtækjum og undirbúningur keppenda er þegar hafin. Við gerum ráð fyrir skemmtilegu kvöldi. Meðal annars mun Karítas Harpa Davíðsdóttir, sigurvegari The Voice Ísland, stíga á svið og syngja. Markmiðið er að gera söngvakeppnina að árvissum viðburði og miðað við undirtektir er ekkert sem getur komið í veg fyrir það,“ segja Kristinn Harðarson og Guðmundur Þór Guðjónsson, skipuleggjendur söngvakeppninnar.

Tónlistarstjóri keppninnar er Stefán Þorleifsson og mun hljómsveitin Pass leika undir.

Eftir keppnina verður blásið til dansleiks þar sem hljómsveitin Pass mun trylla lýðinn til kl. 02:00. Fólk er hvatt til að fjölmenna og gera sér glaðan dag og verða vitni að földum hæfileikum sveitarfélagsins.

Keppnin hefst kl 21:00. Forsala aðgöngumiða er á Hótel Selfossi og Rakarastofu Björns og Kjartans. Miðaverð er 1.500 kr. í forrsölu og 2.000 kr. við innganginn (keppni + dansleikur).

Nýjar fréttir