Foreldrafélög Leikskólans Arkar á Hvolsvelli og Hvolsskóla, ásamt Rangárþingi eystra buðu upp á námskeið fyrir foreldra í sveitarfélaginu sem nefnist „Útistundir“. Um tuttugu manns mættu á námskeiðið. Fyrirlesarar á námskeiðinu voru Pálína Ósk Hraundal, annar höfundur Útilífsbókar fjölskyldunnar, og Anna Lind Björnsdóttir, sem er með meistaragráðu í náttúrutengdri ferðaþjónustu.
Á námskeiðinu var lögð áhersla á fræðslu um kosti útiveru og kynntar aðferðir sem veita fjölskyldum aukinn innblástur og hugmyndir að útivist.
Gréta Helgadóttir, formaður foreldrafélags Hvolsskóla, sem sótti námskeiðið var spurði hvað hafi staðið upp úr. „Mér fannst mjög gott að fá hugmyndir að leiðum til þess að auka áhuga barnanna á útiveru og hvernig fjölskyldan getur sett sér markmið um ákveðinn tíma í útiveru. Einnig af hverju útivera er mikilvæg og áhrif hennar á bæði líkamlega og andlega heilsu. Það sem mér fannst ég fá mest út úr námskeiðinu var hvatningin að drífa mig af stað og hætta að nota endalausar afsakanir fyrir að fara ekki. Erfiðasti áfanginn er einmitt sá að fara yfir þröskuldinn heima hjá sér og það tengja eflaust margir við.“