Iðkendur mótokrossdeildar Selfoss voru í aðalhlutverki á lokahófi Mótorhjóla- og snjósleðasambands Íslands (MSÍ) um seinustu helgi.
Hæst bar árangur Gyðu Daggar Heiðarsdóttur sem varð Íslandsmeistari í Mx kvenna sem og í enduro þar sem hún keppti í fyrsta skipti í sumar. Hún var valin akstursíþróttakona MSÍ á lokahófinu.
Heiðar Örn Sverrisson varð Íslandsmeistari í Mx 40+ sem og í tvímenningi í enduro ásamt Atla Má Guðnasyni. Elmar Darri Vilhelmsson varð í öðru sæti í Mx2. Í 85 cc flokki varð Alexander Adam Kuc í öðru sæti og Eric Máni Guðmundsson í þriðja sæti. Þá voru Bríet Anna Heiðarsdóttir og Eric Máni Guðmundsson valin nýliðar ársins 2018 hjá MSÍ sem er mikil viðurkenning á áhuga þeirra og framförum í íþróttinni en ekki síður mikil viðurkenning á öflugu barna- og unglingastarfi deildarinnar. Þess má að lokum geta að þjálfarar deildarinnar í sumar voru Heiðar Örn og Gyða Dögg.