Fundist hefur áður óþekkt bæjarstæði í Þjórsárdal. Fornleifafræðingar fóru á vettvang fyrir skömmu og báru kennsl á nokkra merka forngripi í lausum jarðvegi. Þar er einna merkilegastur Þórshamar úr sandsteini. Leiða má að því líkum að hann hafi verið borinn um háls einstaklings fyrir 1.000 árum eða svo. Gefur það til kynna að þar hafi farið einstaklingur sem ekki var kristinnar trúar. Ekki hefur áður fundist Þórshamar úr steini hér á landi. Auk þess fundust sylgja, alur og heinarbrýni.
Meðal fornleifafræðinganna er Ragnheiður Gló Gylfadóttir sem hefur að undanförnu unnið að fornleifaskráningu fyrir sveitarfélagið. Að hennar sögn er um stórmerkilegan fund að ræða. Mikill áhugi sé á að kanna bæjarstæðið nánar.
Það var heimamaðurinn Bergur Þór Björnsson frá Skriðufelli sem fann bæjarstæðið og hefur bærinn verið nefndur Bergsstaðir í höfuð finnandans.
skeidgnup.is