-5.5 C
Selfoss

Frumsýning Leikfélags Selfoss í kvöld

Leikfélag Selfoss frumsýnir fjölskylduverkið „Á vit ævintýranna“ í leikstjórn Ágústu Skúladóttur í kvöld, föstudaginn 12. október, í Litla leikhúsinu við Sigtún.

Sýningin er sameiginleg sköpun leikstjórans, leikhópsins og hins skapandi teymis sem vinnur á bakvið tjöldin. Verkiđ er byggt á ævintýri H.C. Andersens um Litla Kláus og stóra Kláus, ljóðinu um Sálina hans Jóns míns eftir Davíð Stefánsson, ásamt kvæði Páls J. Árdal, En hvað það var skrýtið. Allt stórskemmtilegir dýrgripir úr gullkistu ævintýranna.

Ágústa Skúladóttir leikstjóri hefur sett upp fjöldan allan af leiksýningum bæði hérlendis og erlendis, hvort sem er í áhuga- eða atvinnuleikhúsum. Hún hefur unnið til ýmissa verðlauna gegnum tíðina. Nú síðast hlaut hún Grímuna barnasýning ársins 2018, fyrir sýninguna Í Skugga Sveins eftir Karl Ágúst Úlfsson. Ágústa vinnur nú í fyrsta sinn með Leikfélagi Selfoss og má með sanni segja að henni takist afskaplega vel að laða fram hugmyndaflug og leikgleði hjá hópnum.

Uppselt er á frumsýninguna í kvöld.  2. sýning verður sunnudaginn 14. október kl. 18. Síðan verða sýningar fimmtudaginn 18. október, laugardaginn 20. október, sunnudaginn 21. október og fimmtudaginn 25. október.

 

Miðapantanir eru á midasala@leikfelagselfoss.is og í síma 482 2787 milli kl. 14 og 20.

Fleiri myndbönd