Öll börn eru einstök. Sum börn eiga auðvelt með að byggja upp sjálfstraust meðan önnur eiga erfiðara með það. Þá eru sum börn að eiga við margskonar hluti sem geta grafið undan þeirra sjálfstrausti.
Sjálfstraust er mikilvægt en barn með sjálfstraust er líklegri til að prófa nýja hluti og gera sitt besta í þeim aðstæðum. Þegar barnið gerir mistök þá á það auðveldara með að takast á við þau og finna leiðir til að eiga við það. Það eykur seiglu og þol þar sem börn með sjálfstraust eru líklegri til að reyna aftur við verkefni þó þeim mistakist í fyrstu tilraun.
Börn sem eru með sjálfstraust upplifa sig sem velkomin og að öðrum líki við þau. Þau eru örugg og stolt af því sem þau geta gert. Þau hugsa hlýtt og fallega til sín og hafa trú á sér.
Börn sem eru með lítið sjálfstraust eru oftar gagnrýnin og óvægin við sig. Þeim líður oftar eins og þau séu ekki eins góð eða hæfileikarík og önnur börn. Þau eru neikvæð á eigin getu og reikna frekar með því að þeirra verkefni mistakist. Þau vantar oft sjálfsöryggi og efast um eign getu.
Sjálfstraust byrjar að þróast í barnæsku og heldur því áfram ævina á enda. Hjá ungum börnum eru hlutir eins og að barnið upplifi öryggi, ást og sé samþykkt inn í fjölskylduna. Einnig að barnið fái jákvæða athygli og upplifi væntumþykju.
Hér eru nokkrar leiðir sem geta hjálpað til við að auka sjálfstraust barna og unglinga.
1. Gefðu barninu pláss og tíma
Leyfðu barninu að taka áhættur, taka sínar ákvarðanir, leysa vandamál og fylgja sínum leiðum. Of mikil stýring getur haft letjandi áhrif.
2. Of mikið hrós gerir oft meiri skaða en það bætir
Að öðlast hæfni í sínum verkefnum er stór hluti af því að öðlast sjálfsöryggi. Ef barni er sagt að það sé að standa sig frábærlega sama hvað það gerir fær barnið þau skilaboð að það þurfi ekki að leggja meira á sig og reynir þarfaleiðandi ekki aftur né meira. Sjálfstraust eflist með því að setja sér markmið ná því ekki og reyna aftur þ.e.a.s. með æfingu. Eins getur barn haldið að það sé fullkomið eða að það þurfi alltaf að vera fullkomið sem hvorugt er gott fyrir barnið.
3. Leyfðu barninu að taka áhættur í öruggum aðstæðum
Börn byggja upp sitt sjálfstraust með því að fá val, ákveða hvað þau ætla að gera í stöðunni og takast á við afleiðingarnar.
4. Leyfðu barninu að taka sínar eigin ákvarðanir í samræmi við aldur
Það eflir þau og þeim líður eins og þau hafi eitthvað um hlutina að segja en séu ekki bara leidd áfram.
5. Leyfið þeim og hvetjið þau til að hjálpa til á heimilinu
Þau fá sitt hlutverk sem þátttakendur innan heimilisins eins býður þetta oft upp á góða samverustund eins og til dæmis að elda matinn saman.
6. Hvetja þau til að sinna því sem þau hafa áhuga á, hjálpa þeim og hvetja þau til að klára verkefni sem eru þessu tengd.
Hjálpa því að rækta sinn áhuga og styrkleika, tengja markmið inn í þau og styðja þau í að reyna við þau og ná þeim.
Hvað á að gera þegar barn á í erfiðleikum eða nær ekki sínum markmiðum?
Horfðu á það sem tækifæri til að byggja upp sjálfstraustið. Látið börnin vita að ykkur þyki jafn vænt um þau sama hvað komi uppá. Ef einblínt er á árangur geta börn haldið að væntumþykjan skilyrðis við hversu vel þeim gangi en tengist ekki þeirra eigin verðleikum. Hafið hugfast að markmið barnanna henti þeim og sé aldurssamsvarandi.
Hrósið þegar það á við, eins og þegar barnið er búið að leggja sig fram.
Uppgötva sína kosti og hæfileika
Það er mikilvægt að þið hjálpið börnunum ykkar að finna sína hæfileika, kosti og það að kenna þeim að þeirra kostir eru ekki betri né verri en annarra.
Setja sér markmið
Kennið börnunum ykkar að vinna að settu markmiði og finna fyrir stolti þegar því markmiði hefur verið náð. Reynið að gefa þeim tækifæri og skapa þeim þær aðstæður til að vinna þessa sigra.
Seigla
Hvetjum börnin til að beita sínum aðferðum til að prófa hluti, takast á við erfiðleika og taka aldurssamsvarandi áhættur.
Lára Ólafsdóttir, sálfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.