Kæra vegna íbúakosninga sem fram fóru í Sveitarfélaginu Árborg 18. ágúst sl. var lögð fram hjá Sýslumanninum á Suðurlandi þann 23. ágúst sl. Kærendur voru Aldís Sigfúsdóttir og Magnús Karel Hannesson.
Kærendur töldu að ágallar hefðu verið á framkvæmd kosninganna og fóru fram á að þær yrðu úrskurðaðar ógildar.
Sýslumaðurinn á Suðurlandi skipaði hinn 28. ágúst sl. þriggja manna nefnd [kjörnefnd] til að úrskurða um kæruefnið. Nefndin fékk umsögn yfirkjörstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar og kvað í framhaldi þess þann úrskurð að kröfum kærenda skyldi hafnað.
Í úrskurði kjörnefndar segir að nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að tveir annmarkar hafi verið á undirbúningi kosninganna, en að hvorugur þeirra teljist galli sem hefði getað haft áhrif á niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar, hvort sem þeir séu metnir hvor fyrir sig eða sameiginlega.
Bæjarráð Árborgar fjallaði um niðurstöðuna á fundi sínum 20. september sl. Í fundargerð kemur fram að bæjarráð fagnar þeim úrskurði að hafnað skuli kröfum kærenda um ógildingu íbúakosninganna 18. ágúst sl.
Nánar um kæruna og úrskurð kærunefndar
Íbúakosningarnar sem fram fóru laugardaginn 18. ágúst sl. snerust annars vegar um breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins og hins vegar um nýtt deiliskipulag fyrir miðbæjarsvæði á Selfossi.
Kærendur töldu að ágallar hefðu verið á framkvæmd íbúakosninganna og fóru fram á að kosningarnar yrðu úrskurðaðar ógildar.
Kæran snerist í fyrsta lagi um að um brot á formskilyrðum 107. og 108. gr. sveitarstjórnarlaga og reglugerðar nr. 155/2013 um undirskriftarsafnanir vegna almennra atkvæðagreiðslna samkvæmt lögum varðandi íbúakosningar hefði verið að ræða.
Í öðru lagi að upplýsingar í kynningarbæklingi sem sveitarfélagið lét dreifa á öll heimili hefðu verið af skornum skammti og alls ekki verið í samræmi við ákvæði 2. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga um skyldur sveitarstjórnar til að upplýsa kjósendur til þess að þeir gætu tekið upplýsta afstöðu til tillögunnar sem borin var undir atkvæði.
Í þriðja lagi gerðu þau athugasemd við auglýsingu sveitarfélagsins um framlagningu kjörskrár.
Í fjórða lagi töldu kærendur að ákvörðun yfirkjörstjórnar um að framlengja kjörfund umfram þann tíma sem auglýst var að hann stæði ólögmæta.
Sýslumaðurinn á Suðurlandi skipaði hinn 28. ágúst sl. þriggja manna nefnd [kjörnefnd] til að úrskurða um kæruefnið. Í nefndina voru skipuð Kristín Benediktsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, Þóra Hallgrímsdóttir, sérfræðingur við lagadeild Háskólans í Reykjavík og Ari Karlsson lögmaður.
Nefndin kom saman 29. ágúst og sendi sama dag bréf til yfirkjörstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar. Í bréfinu var gerð grein fyrir fram kominni kæru og óskað eftir umsögn yfirkjörstjórnar um kæruna.
Umsögn yfirkjörstjórnar barst nefndinni 5. september sl.
Í umsögn yfirkjörstjórnar vegna kærunnar kemur fram að það sé mat yfirkjörstjórnar að kosningin hafi farið fram í samræmi við gildandi lög og að þau atriði sem nefnd séu í kærunni hafi ekki áhrif á úrslit kosninganna. Yfirkjörstjórn benti jafnframt á að kærendur færi ekki rök fyrir að ætlaðir gallar á kosningunni hafi haft áhrif á úrslit hennar. Í umsögn sinni tekur yfirkjörstjórn fram að henni sé ekki unnt að veita tæmandi umsögn eða upplýsingar um þá þætti sem kjörstjórninni er ekki ætlað að annast samkvæmt sveitarstjórnarlögum og eru á forræði sveitarstjórnar.
Kjörnefndin kvað í framhaldinu upp þann úrskurð að kröfum kærenda væri hafnað.
Um ætlaðan galla á ákvörðun um almenna atkvæðagreiðslu segir í úrskurði kjörnefndar að ekki sé ástæða til að fjalla um önnur þau sjónarmið er fram koma í kæru um ástæður bæjarstjórnar fyrir ákvörðun um að efna til almennrar atkvæðagreiðslu, samspil þeirrar ákvörðunar við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, ætlaða meðferð sveitarfélagsins á undirskriftarlistum eða önnur slík atrið sem rakin eru varðandi þennan þátt kærunnar.
Um ætlaðan galla á efni kynningarbæklings er það niðurstaða kjörnefndar að ekki hafi verið galli á kynningarefni sveitarfélagsins í skilningi ákvæðis 2. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga.
Um ætlaðan galla í auglýsingu um framlagningu kjörskrár er það mat kjörnefndar að annmarki sem getur um í kærunni hafi ekki verið með þeim hætti að hann teljist galli sem ætla megi að hafi haft áhrif á úrslit atkvæðagreiðslunnar.
Um ætlaðan galla á framkvæmd atkvæðagreiðslu telur kjörnefnd að slit atkvæðagreiðslu 18. ágúst sl. hafi verið samkvæmt 2. mgr. 66. gr. kosningalaga og því ekki um galla á framkvæmd kosninganna að ræða.
Í úrskurði kjörnefndar segir að lokum að kjörnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að tveir annmarkar hafi verið á undirbúningi kosninganna, en að hvorugur annmarkanna teljist galli sem hefði getað haft áhrif á niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar, hvort sem þeir séu metnir hvor fyrir sig eða sameiginlega.
Að fenginni þeirri niðurstöðu og með vísan til ákvæðis 94. gr. kosningalaga sé því kröfum kærenda um ógildingu atkvæðagreiðslunnar hafnað.
Úrskurðarorð kærunefndar eru eftirfarandi: „Hafnað er kröfu kærenda, Aldísar Sigfúsdóttur og Magnúsar Karels Hannessonar, um ógildingu almennrar atkvæðagreiðslu Sveitarfélagsins Árborgar sem fram fór laugardaginn 18. ágúst 2018.“