Félags- og húsnæðismálaráðuneytið stendur nú fyrir átaksverkefni gegn félagslegri einangrun undir yfirskriftinni Tölum saman. Með henni vilja stjórnvöld vekja athygli almennings á því hve alvarleg félagsleg einangrun er og hvernig við getum öll verið hluti af lausninni. Ýmis ráð eru til að rjúfa félagslega einangrun, hvort sem er fyrir þau sem eru félagslega einangruð eða fólkið í kringum þau – og hefur eftirspurn verið mikil eftir fræðsluefninu sem nálgast má á island.is/felagsleg-einangrun.
Tengiráðgjafar
Eitt af þeim úrræðum sem eru í boði vítt og breitt um landið er þjónusta tengiráðgjafa, en þeir veita eldra fólki og öðrum viðkvæmum hópum stuðning til að rjúfa félagslega einangrun og finna leiðir til að auka virkni. Tengiráðgjafinn í Árborg og Hveragerðisbæ heitir Bylgja Sigmarsdóttir og hægt er að hafa samband við hana í gegnum netfangið bylgjas@arborg.is
Tengiráðgjafar nálgast einstaklinga sem eru félagslega einangraðir eða eiga á hættu að einangrast, meðal annars með símtölum og heimsóknum og vinna með þeim að leiðum til að auka virkni. Tengiráðgjafar hafa einnig yfirsýn yfir bjargir nærsamfélagsins, sérstaklega þau úrræði sem eru líkleg til að auka félagsleg samskipti viðkvæmra hópa. Um tveggja ára tilraunaverkefni er að ræða sem fór af stað hjá stjórnvöldum sem viðbragð við félags- og heilsufarslegum afleiðingum Covid-19 heimsfaraldursins.
Tengiráðgjafarnir hafa þegar verið í samskiptum við fjölda íbúa og þau sem sinna þjónustu við hópinn á sínum svæðum.
Félagsleg einangrun er þögul ógn
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að markmið vitundarvakningarinnar sé að opna augu fólks fyrir félagslegri einangrun í samfélaginu og vekja athygli á samfélagslegri ábyrgð okkar allra.
„Sem ráðherra félags- og öldrunarmála þá er það eitt af mínum hjartans málum að vinna gegn þeirri þöglu ógn sem einmanaleiki og félagsleg einangrun eru,“ segir hún.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint félagslega einangrun sem lýðheilsuvanda til jafns við reykingar, ofneyslu áfengis, offitu og fleiri stórfelldar ógnir við almenna heilsu. WHO telur að um eitt af hverjum tíu ungmennum upplifi félagslega einangrun og um fjórðungur eldra fólks.