10.7 C
Selfoss

Spjallar og prjónar til að læra íslensku

Vinsælast

Nýverið hófst starfsemi prjónahópsins Spjalla og prjóna á Hvolsvelli, að frumkvæði Hada Kisu sem flutti nýverið til Íslands og vildi leita leiða til að kynnast fólki og æfa íslenskuna.

„Ég vinn í sundlauginni á Hellu og spurði samstarfskonu mína sem prjónar líka hvort hún vissi um einhvern prjónaklúbb í nágrenninu,“ segir Hada í samtali við Dfs.is, sem hafði áhuga á að tengjast samfélaginu betur. Þegar í ljós kom að enginn slíkur klúbbur var starfandi, lagði samstarfskonan til að hún stofnaði einn sjálf – og það gerði hún. Markmiðið var að bjóða öðru fólki að vera með sem hefur líka áhuga á að vera hluti af samfélaginu.

Fyrsti fundurinn var haldinn 27. mars og tókst afar vel. „Eftir að ég birti mynd af viðburðinum fékk ég strax skilaboð frá bókasafninu á Hvolsvelli sem bauð okkur að hittast þar – þau voru svo indæl!“ segir Hada.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa og höfðu þrír prjónahópar á Hellu og Hvolsvelli samband. Á fyrsta fundinn mættu þrjár manneskjur – tvær íslenskar og ein norsk – og markmiðið er að allir, óháð uppruna eða reynslu, geti tekið þátt. „Það er engin krafa um að kunna að prjóna. Ég get kennt fólki og lánað bæði prjóna og garn, tekur Hada fram.

Hópurinn hittist annan hvern fimmtudag frá kl. 16:30 til 18:00 á bókasafninu á Hvolsvelli, þegar Hada er ekki á vakt. Þar gefst fólki tækifæri til að njóta samvista, læra að prjóna og jafnvel íslensku.

„Þetta er frábær leið til að æfa íslensku,“ segir hún. „Ef þú umlykur þig íslenskumælandi fólki lærir þú meira og meira með hverjum degi. Íslendingar eru stoltir af tungumálinu sínu og vilja hjálpa manni ef maður leggur sig fram.“

Aðspurð hvort íslenskan sé erfið svarar Hada því játandi. „Já, mjög krefjandi! En líka skemmtileg. Ég hlæ mikið á meðan ég læri… af hverju breytist hvert orð stöðugt?“

Hada hefur búið á Íslandi í eitt ár og stefnir á að vera hér að eilífu. „Ég er stolt af því sem ég hef lært í tungumálinu og ráðlegg öðrum að byrja á því að fullkomna hreiminn. Það hjálpar mikið!“segir hún að lokum.

Nýjar fréttir