7.2 C
Selfoss

Rekstrarafkoma Hveragerðisbæjar einstök

Vinsælast

Ársreikningur Hveragerðisbæjar var tekinn til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi fimmtudaginn 10. apríl sl. Niðurstaðan er einstaklega góð og skilar einstakri rekstrarafkomu bæjarins að sögn meirihlutans.

Rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um 225 millj. kr. Rekstrarniðurstaða A og B hluta var jákvæð um 175 millj. kr. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 1.402 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A og B hluta, en eigið fé A hluta nam 1.302 millj. kr.

„Fjárhagsleg staða bæjarins er öflug og stendur vel undir áframhaldandi fjárfestingum í innviðum og þjónustu til bæjarbúa. Samstarf bæjarstjórnar hefur verið gott undanfarið ár og það skiptir miklu máli til að tryggja sem besta útkomu allra bæjarmála, í þágu Hvergerðinga. Í Hveragerði er öflugt lífsgæðasamfélag í vexti og það eru sannarlega bjartir tímar framundan í bæjarfélaginu okkar sem stendur nú í blóma sem aldrei fyrr,“ segir meirihlutinn.

Uppbygging innviða í Hveragerðisbæ hefur sjaldan verið meiri. Íþróttamannvirki, þriðji áfangi grunnskólans, viðbygging við leikskóla, gatnagerð og skolphreinsistöð eru allt verkefni á lokametrum framkvæmda eða í framkvæmd. „Þessi mjög svo góða rekstarafkoma styrkir þann fjárhagslega grundvöll sem þarf að vera til staðar í þeirri mikilvægu innviða og þjónustu uppbyggingu – uppbygging til að tryggja einstök gæði í þjónustu og velferð við íbúa bæjarins. Afkoma ársins 2024 er gleðiefni fyrir alla Hvergerðinga,“ segir að lokum.

Nýjar fréttir