Á föstudaginn langa mun Henrik Knudsen, íbúi á Eyrarbakka, ganga frá heimili sínu að Hvítasunnukirkjunni á Selfossi með kross á bakinu til að vekja athygli á trú sinni á Jesú. Hann byrjar að ganga kl. 8 um morguninn og býst við að koma að Nytjamarkaðinum kl. 11 og ganga síðan að Austurvegi þar sem Hvítasunnukirkjan er. Þar verður fólki boðið að borða hádegismat með honum og konu hans, Halldóru Guðjónsdóttur, milli 12:30 – 14 og ef veður leyfir gengur Henrik aftur með krossinn í gegnum miðbæinn um kaffileitið.
Henrik smíðaði krossinn í skemmu þegar hann og Halldóra bjuggu í sveit á Öðvaldstöðum. Hann hefur gengið með krossinn víða.
„Við förum með hann í göngur upp á fjöll í kringum höfuðborgarsvæðið og köllum það CrossFit,“ segir Halldóra, eiginkona Henriks.

Henrik gekk með krossinn um miðbæ Reykjavíkur þegar þau hjónin bjuggu þar árið 2022. Þau fluttu seinna á Vopnafjörð og sumardaginn fyrsta 2022 gekk hann frá Vopnafirði til Reykjavíkur með krossinn. 2023 var krossinn í pásu en í fyrra var gengið með hann í kringum Mjóddina um páskana.

Núna ætlar Henrik að ganga með krossinn í fimmta sinn og lendir það akkúrat á þeim degi sem minnst er þess að Jesú fór á krossinn. „Mér finnst það mjög táknrænt fyrir þann stað sem Guð hefur leitt okkur á,“ segir Halldóra að lokum.