7.8 C
Selfoss

Marína Ósk hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin og undirbýr tónleika á Eyrarbakka

Vinsælast

Tónlistarkonan Marína Ósk vann á dögunum Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir besta söng í djassflokki, en Marína er búsett á Eyrarbakka. Þetta var í annað sinn sem verðlaunin falla henni í skaut, en árið 2022 hlaut hún verðlaunin fyrir lagið The Moon and the Sky sem valið var djasstónverk ársins. 

„Þetta kom skemmtilega á óvart en ég hafði ekki gert mér háleitar vonir! Ég er gríðarlega þakklát þeim sem ég var nógu heppin að leika tónlist með á síðasta ári, og er mikill aðdáandi þeirra djasssöngkvenna sem einnig voru tilnefndar, segir Marína Ósk. 

Marína Ósk rekur, ásamt kærasta sínum, viðburðafyrirtækið MX VERKEFNI, en undir þeim merkjum hlutu þau nýlega styrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands fyrir tónleikaröð sem þau hyggjast halda næstkomandi haust. Á tónleikunum, sem munu fara fram heima í stofu þeirra skötuhjúa á Eyrarbakka, mun Marína taka á móti þekktum íslenskum söngvaskáldum og saman munu þau leika frumsamda tónlist beggja, ásamt sígildum lögum sem allir þekkja inn á milli. Hugmyndin er að halda hlýlega tónleika með áherslu og nánd við áhorfendur, sögustund og ljúfa tónlist. 

Marína Ósk leggur nú lokahönd á útgáfu þriðju breiðskífu sinnar sem væntanleg er í lok mánaðar. „Þessi plata er eilítið frábrugðin fyrri útgáfum en ég er rosalega spennt fyrir að koma kenni út í kosmósinn,“ segir Marína að lokum. 

Nýjar fréttir