Þemadagar Vallaskóla fóru fram í þessari viku. Þeir byrjuðu á miðvikudag og enduðu á stórkostlegri sýningu í dag. Þemað að þessu sinni var vísindi. Öllum skólanum var blandað saman á mismunandi stöðvar þar sem unnið var með allt á milli himins og jarðar sem tengist vísindum. Má þar nefna fornleifafræði, geimrannsóknir, sólkerfið, hafið, ferskvatn, lífríki, rafmagn og efnafræði. „Okkur fannst vera skortur á kennslu þar sem krakkarnir eru að búa til og prófa tilraunir. Þau eru búin að vera að prófa ýmislegt,“ segir Tinna Ýr Einisdóttir, einn skipuleggjanda þemadaganna, í samtali við Dfs.is.

Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.
Fyrstu tveir dagarnir fara í vinnu þar sem unnið er að mismunandi sýningum sem var svo opin gestum í dag. „Þetta voru í rauninni bara fjórar klukkustundir sem krakkarnir unnu í þessu verkefni þannig að það er alveg magnað að sjá uppskeruna á þessum stutta tíma,“ segir Tinna. Auk vinnunnar var uppbrot báða daga þar sem krakkarnir fóru í ljósabolta fyrsta daginn og náttúrubingó þann seinni.
Tinna segir það hafa gengið ótrúlega vel hjá yngri og eldri nemendum að vinna saman. Hóparnir voru 22 en sumar stöðvar unnu að sameiginlegu verkefni. „Þetta eru svo margar spennandi stöðvar. Krakkarnir vildu svo margir prófa það sama, þannig að við höfðum tvennt af öllu sums staðar,“ segir Tinna.

Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.
Mikil ró einkenndi dagana að sögn Tinnu sem kom starfsfólkinu á óvart. „Yfirleitt verða allir æstir og spenntir í svona uppbroti.“

Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.
Mikill fjöldi fólks mætti í Vallaskóla til að sjá afrakstur vinnunnar. Eftir að sýningunni lauk bauð foreldrafélag Vallaskóla upp á skemmtiatriði þar sem Villi vísindamaður kom með vísindasýningu í íþróttasal skólans og tók að henni lokinni tvö lög. Nemendur voru svo sendir sáttir heim í páskafrí.

Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.

Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.