5.6 C
Selfoss

Bakgarðspíslin framundan hjá Frískum Flóamönnum

Vinsælast

Frískir Flóamenn er hlaupahópur á Selfossi sem hefur verið starfræktur í tæp 30 ár. Æfingar eru á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17:15 og á laugardögum kl. 9:10. Æfingar hefjast allar við Sundhöll Selfoss og eru ókeypis. Þjálfari er Þórfríður Soffía Haraldsdóttir, sjúkraþjálfari. Hún setur inn upplýsingar á Facebooksíðu hlaupahópsins um fyrirhugaða æfingu með dags fyrirvara og þá er hægt að sjá hvernig æfingin verður. Æfingar eiga að henta bæði byrjendum og lengra komnum.

Framundan hjá Frískum er Bakgarðspíslin 2025 en það er viðburður í anda bakgarðshlaupa sem notið hafa mikilla vinsælda á undanförnum árum en þá er hlaupin vegalengd sem samsvarar 4 mílum á hverjum klukkutíma. Bakgarðspíslin er með smærra sniði eða þannig að hlaupin er 1 míla (1,67 km) á hverjum 15 mín. Ræsing er því á hverju korteri þar sem þátttakendur eiga að vera búnir að skila sér í mark innan 15 mín. til að mega leggja af stað í næstu ræsingu. Hlaupið er nú haldið í fjórða sinn í Hellisskógi og er ávallt haldið á föstudaginn langa sem nú er 18. apríl nk. Fyrsta ræsing er kl. 8:00 við Grímskletta og síðasta ræsing er kl. 15:30 en þeir sem hlaupa allan tímann geta hlaupið um 50 km. Nánari upplýsingar má finna á Facebook-síðu hlaupahópsins þegar nær dregur hlaupi: https://www.facebook.com/groups/135968469810840. Tveir styrktaraðilar koma að Bakgarðspíslinni en Íslenska Gámafélagið lánar kamar sem þátttakendur geta notað meðan á hlaupinu stendur og Almar bakari gefur þátttakendum bakkelsi. Þá hefur Sigmundur Stefánsson hinn eini sanni útbúið þátttökupeninga úr trjám úr Hellisskógi.

Þátttökupeningar bp24, búnir til úr trjám úr skóginum.
Ljósmynd: Aðsend.

Fræðsluerindi frá landsliðsfólki í utanvegahlaupum verður haldið þriðjudaginn 29. apríl nk. en þá koma Andrea Kolbeinsdóttir og Þorsteinn Roy Jóhannsson og segja okkur frá sinni reynslu og afrekum. Fyrirlesturinn verður haldinn í Tíbrá kl. 19:30 og er aðgangur ókeypis.

Stærsta verkefni hlaupahópsins er vinna við Laugavegshlaupið sem haldið verður 12. júlí nk. Þar verða um 40 manns úr hlaupahópnum í sjálfboðavinnu við brautarvörslu og drykkjarstöðvar á hlaupaleiðinni frá Landmannalaugum í Þórsmörk. Þetta verkefni gerir kleift að bjóða upp á gjaldfrjálsar æfingar með þjálfara, áhugaverða fræðslu og skemmtilega viðburði. Verið öll hjartanlega velkomin á æfingar.

Nýjar fréttir