5 C
Selfoss

Magnús Tryggvason kosinn í stjórn SSÍ og sundfólk heiðrað

Vinsælast

Þing Sundsambands Íslands fór fram í Reykjavík 29. mars sl. Þingið fór vel fram undir forystu þeirra Guðmundar Óskarssonar frá Golfklúbbi Keilis og Guðmundu Ólafsdóttur framkvæmdastjóra ÍA. Þátttaka var góð en 40 fulltrúar frá 12 félögum sóttu þingið að þessu sinni.

Formaður SSÍ, Björn Sigurðsson, var endurkjörinn sem formaður til tveggja ára. Viktoría Gísladóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn SSÍ. Nýr stjórnarmaður er Magnús Tryggvason sem kemur af sambandssvæði HSK, en hann hefur verið viðloðandi hreyfinguna í tugi ára.

Magnús Tryggvason.

Góðar og miklar umræður fóru fram um tillögur sem lágu fyrir á þinginu en hápunktur þingsins var veiting heiðursviðurkenninga.

Þrír einstaklingar voru gerðir að heiðursfélögum SSÍ en það eru þau Eðvarð Þór Eðvarðsson, Guðmundur Gíslason og Hrafnhildur Guðmundsdóttir. Þau tengjast öll sambandssvæði HSK með einhverjum hætti.

Eðvarð Þór Eðvarðsson hefur sett mark sitt á sundíþróttina um árabil. Fyrst sem sundmaður en hann byrjaði að æfa sund hjá Njarðvík 8 ára gamall, seinna sem afreksmaður í sundi og síðast en ekki síst sem farsæll þjálfari. Hann hefur verið merkisberi sundíþróttarinnar í Njarðvík og á Íslandi í tæplega 50 ár. Eðvarð Þór státar af einum besta sundferli sem íslenskur sundmaður hefur átt og náð frábærum árangri hér heima og á alþjóðlegum vettvangi. Árið 1986 var hann kjörinn íþróttamaður ársins. Það ár var hann fyrstur íslenskra sundmanna til að komast í úrslit á heimsmeistaramóti í sundi. Hann setti jafnframt Norðurlandamet á mótinu. Árið 1988 komst hann í 16. manna úrslit á Ólympíuleikum. Þá hefur Eðvarð Þór sett fjölda Íslandsmeta á ferlinum. Hápunktur á hans ferli var þegar hann varð í fjórða sæti í 200 m baksundi á EM50 1987, þar setti hann einnig Íslands- og Norðurlandamet í greininni. Þegar keppnisferlinum lauk átti sundíþróttin í heild sinni því láni að fagna að fá Eðvarð til starfa sem þjálfara. Hann hefur verið góð fyrirmynd og afar farsæll þjálfari.

Guðmundur Gíslason á langan og farsælan feril að baki sem einn af okkar fremstu sundmönnum. Hann var fyrstur Íslendinga til að ná þeim ótrúlega árangri að keppa á fjórum Ólympíuleikum, í Róm 1960, Tókýó 1964, Mexíkóborg 1968 og á leikunum í Vestur-Þýskalandi 1972. Hann setti yfir 150 Íslandsmet á ferlinum og náði góðum árangri á alþjóðlegum mótum. Hann var kjörinn Íþróttamaður ársins í tvígang, fyrst árið 1962 og svo aftur sjö árum síðar, 1969. Eftir að hann hætti keppni hefur hann verið hvetjandi og ötull stuðningsmaður sundhreyfingarinnar hér á landi. Hann starfaði með Sundráði Reykjavíkur og Sundsambandi Íslands um árabil. Hann barðist fyrir betri aðstöðu fyrir sundíþróttina og sat í byggingarnefnd Laugardalslaugarinnar á sjöunda áratugnum.

Hafnhildur Guðmundsdóttir er brautryðjandi í íslensku sundi og ein af fremstu sundkonum sem Ísland hefur alið. Hún keppti fyrir Íslands hönd á tveimur Ólympíuleikum – í Tókýó 1964 og Mexíkóborg 1968 – og varð þar með ein af fyrstu íslensku konunum til að keppa á þessum stærsta alþjóðlega vettvangi íþrótta. Hún var margfaldur Íslandsmeistari, fjölhæf og yfirburða sundkona um langt árabil, ekki bara hér heima heldur líka á erlendum vettvangi. Hún var fjórum sinnum á lista yfir kjör íþróttamann ársins, 1963, 1964, 1965 og 1968. Eftir að keppnisferlinum lauk helgaði Hrafnhildur sig sundkennslu og þjálfun, lengst af í Þorlákshöfn og á Selfossi. Hún á farsælan þjálfaraferil að baki og þjálfaði hún meðal annars eigin börn sem eins og hún náðu góðum árangri í sundi.

Nýjar fréttir