Páskaveisla verður í Eyrarbakkakirkju laugardaginn 19. apríl klukkan 15. Ásta Kristrún og Valgeir Guðjónsson í bakkastofu standa fyrir veislunni. „Við í Bakkastofu hefjum okkur til flugs á nýjan leik með eins konar fuglasöng og kæti,“ segir Kristrún.
„Við tengjum fugla og egg gjarnan við þessa björtu hátíð en kvæði Jóhannesar úr Kötlum sem eru í öndvegi ríma svo fagurlega við fugla og smádýr í íslenskri náttúru.“
Tónlistarparið Kristrún Steingrímsdóttir frá Kálfholti í Ásahreppi og unnusti hennar Joel Chrisopher Durksen leika og syngja með Valgeiri en Ásta Kristrún er gestgjafi sem spinnur frásagnir og lýsingar á því sem sungið er um hverju sinni. Svo má ekki gleyma að Valgeir stígur sjaldnast á stokk án þess að kyrja önnur lög úr eigin ranni, bæði gömul og ný.
Skáldin tvö og nábýlið á Suðurlandi
Bakkastofa hefur boðið upp á tónleika yfir páskahátíðina til margra ára sem lengst af gengu undir nafninu Fuglatónleikar.
Heimur þessara merku lífvera er skoðaður með augum skáldsins Jóhannesar úr Kötlum en Valgeir Guðjónsson, tónbóndinn í Bakkastofu, hefur samið lög fyrir þrjár hljómplötur við kvæði Jóhannesar, Fugl dagsins var sú fyrsta, svo Fuglar tímans og sú þriðja Fuglakantata.
„Það er ánægjulegt að vita af þessum tveimur skáldum í nábýli hér á Suðurlandi en Jóhannes bjó lengst af í Hveragerði og Valgeir síðan á Eyrarbakka. Nú býr Svanur sonur Jóhannesar í Hveragerði og því stutt að fara til að krunka og afla frásagna frá uppvexti hans með skáldinu föður hans,“ segir Kristrún.

Að manngera fugla og smádýr og efla samkennd
Þegar að er gáð eflir kveðskapur Jóhannesar meðvitund og skilning fólks á viðkvæmri náttúrunni sem er mörgum svo hugleikin. „Jóhannes hefur einstakt lag á að manngera fugla og smádýr og ýta undir samkennd okkar mannfólksins sem er svo mikilvæg í samskiptum og umburðarlyndi gagnvart náunganum,“ segir Kristrún.
„Með látbragði, frásögnum og söng virkjum við gesti til að taka þátt í þessari páskaveislu.“

Ljósmynd: Aðsend.
Miðasala fyrir tónleikana er á Tix.is.