11.7 C
Selfoss

Síðustu tónleikar Vetrartóna í Stokkseyrarkirkju

Vinsælast

Sjöttu og síðustu tónleikar í fyrstu tónleikaröð Vetrartóna í Stokkseyrarkirkju fara fram fimmtudagskvöldið 10. apríl og hefjast kl. 20.

Stokkseyringurinn og sópransöngkonan Kristína G. Guðnadóttir flytur ásamt Ester Ólafsdóttur píanóleikara og organista blandaða söngdagskrá. Á efnisskránni eru sönglög eftir Pál Ísólfsson við Ljóðaljóðin, Sigurð Þórðarson og Henry Purcell auk þekktra aría úr óratoríum eftir Jóhann Sebastían Bach og Georg Friðrik Handel. Kristínu og Ester til fulltingis í flutningi aríanna verða Eyjólfur Eyjólfsson sem leikur á flautu og Uelle Hahndorf á selló.

Kristína er búsett ásamt sænskum eiginmanni og fjórum börnum í Nyhyttan í Svíþjóð og stundar framhaldsnám í söng við Tónlistarháskólann í Ingesund. Hún flaug sérstaklega til landsins til að taka þátt í Vetrartónum og er að sögn full tilhlökkunar að syngja þessa fallegu efnisskrá á æskuslóðunum.

Aðgangur er ókeypis á alla tónleika Vetrartóna en tónleikagestum stendur til boða að leggja til frjáls framlög sem renna beint til tónlistarfólksins. Tónleikaröðin er styrkt af Tónlistarsjóði og Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Öll eru hjartanlega velkomin.

Nýjar fréttir