9.5 C
Selfoss

Mikil ró og virðing einkennir íslenska skóla

Vinsælast

Um þessar mundir eru 16 kanadískir kennaranemar frá Nova Scotia í starfsnámi í Vallaskóla, Sunnulækjaskóla, BES og FSu ásamt prófessorunum Andrew Foran og William Walters. Andrew er hérna í þriðja sinn en hann kom fyrst árið 2008 og 2015. Hann segir Ísland uppáhaldsstaðinn sinn til að koma með kennaranema þar sem kerfið sé gott hér. Blaðamaður settist niður með Andrew, William og Páli Sveinssyni, skólastjóra Vallaskóla, og ræddi muninn á íslensku og kanadísku skólakerfi.

Fagmennskan framúrskarandi

Andrew og William hafa farið saman með kennaranema í alþjóðlegar ferðir í um áratug. Andrew byrjaði sjálfur á því fyrir 23 árum. Önnur lönd sem þeir hafa farið til eru Noregur, Svíþjóð, Skotland, Ástralía og Kenýa. Norðurlöndin eru alltaf í uppáhaldi að mati Andrew. Hann segir þau vera ólík Kanada en að kerfið sé nógu svipað til að geta áttað sig á takti hlutanna. „Það sem er mikilvægt fyrir okkur er að kennararnir okkar geti komið á staðinn, farið í skólana, áttað sig á taktinum og byrjað að kenna án þess að fá menningarsjokk.“

Kennaranemarnir fá að kenna á öllum námsstigum og margar mismunandi greinar. Má þar nefnasamfélagsfræði, stærðfræði, íþróttir og almenna kennslu á yngsta stigi. Páll Sveinsson, skólastjóri Vallaskóla, segir samstarf íslensku og kanadísku kennaranna ganga vel.

Nemarnir fá að kenna margar mismunandi greinar á öllum stigum.
Ljósmynd: Aðsend.

Andrew segir að kennaranemarnir séu flestir sammála um að skólarnir hér séu rólegir, börnin þroskuð og í góðu jafnvægi miðað við í Kanada. Hann segir kennarana líka mjög faglega. „Kennararnir eru ánægðir, samstarfsfúsir og vilja vinna saman. Fagmennskan er framúrskarandi og gæði kennslunnar hér er mjög mikil.“

Hann segir gæðakröfurnar sem gerðar séu til íslenskra kennara vera eina af ástæðunum fyrir því að honum líki vel að koma til Íslands. „Það er allt mjög faglegt. Það mikilvægasta fræðilega séð er að gæðin eru til staðar, en það eru samskiptin sem kennararnir eiga við börnin sem fyrir mér skera sig virkilega úr hérna,“ segir Andrew og tekur sem dæmi að hver kennari hér kenni gjarnan sama hópnum í þrjú ár sem verður til þess að kennarar og nemendur tengjast betur.

Kennaranemarnir eru sammála um það að það sé ró í íslenskum skólum.
Ljósmynd: Aðsend.

Andrew minnist einnig á undirbúningstímann sem íslenskir kennarar eru með. „Þegar skóladeginum lýkur safnast kennarar saman í tvo tíma til að skipuleggja og samræma og vinna hugmyndir í gegn. Þetta er ósýnilega vinnan. Almenningur myndi venjulega ekki vita af þessu. Íslensku kennararnir vinna mjög skynsamlega.“

Mjög einlæg virðing milli kennara og nemenda

Andrew og William hitta nemendur sína á hverjum degi á meðan þeir dvelja hérna og taka stöðuna og eru flestir á sama máli um upplifun sína.

„Það er stöðug ró. Það eru engar bjöllur, engin pressa og það er hægt að kenna án truflunar. Ég held að það sé mikilvægt. Enginn er að trufla, nemendurnir eru duglegir og einbeita sér að vinnunni sinni. Ég vitna í einn af kennaranemum okkar: „Þetta er í fyrsta skipti sem ég gat í raun bara kennt, ég þurfti ekki að eiga við tilkynningar og bjöllur eða slæma hegðun. Ég gat bara kennt og það var svo hressandi.“ Það sem ég hef séð síðustu tvær vikur er bara ákveðið stig virðingar. Það er mjög einlæg virðing,“ segir Andrew um íslenska menntakerfið og bætir við að nokkrir kennaranemanna hafi sagt að þeir vildu ekki fara til baka heldur vera áfram á Íslandi og kenna.

Sumir nemar höfðu orð á því að vilja vera áfram á Íslandi.
Ljósmynd: Aðsend.

Páll Sveinsson segir þessa sýn þeirra frábæra. „Þetta er það sem kennarar, foreldrar og stjórnendur hafa haft áhyggjur af síðastliðinn áratug, skortur á virðingu og slæm hegðun. Hann segir kerfið hafa breyst á síðustu árum og að í dag sé frekar lögð áhersla á velferð nemandans frekar en námsgetu. „Ef barn er hamingjusamt og því líður vel þá getum við talað um námsefnið. Þú reynir ekki að þvinga nám á barn sem á í erfiðleikum.“

Andrew segir kennarana í Nova Scotia líka vilja gera það sem sé nemandanum fyrir bestu en að það sé svo margt annað sem þurfi að huga að og það sé auðvelt að missa sjónar á því.

William segir mikið stress og hraða einkenna skólakerfið í Kanada og að það sé mun rólegra á Íslandi. „Ég heyri frá nemendum okkar að hér sé afslappað og meiri áhersla lögð á nemandann og minni á hvað þurfi að kenna. Það virðist næstum mannlegra og heildstæðara.“ Hann bætir við hvað honum finnist jákvætt að börnum á Íslandi séu kenndar verklegar greinar eins og textíll, heimilisfræði og sund. Í Kanada sé mest lögð áhersla á lestur og stærðfræði. „Okkur finnst við vera að missa af einhverju með því að hafa þetta ekki,“ segir William og vonast til þess að geta tekið þessar greinar með sér heim til Kanada.

Læra af hverjum öðrum

Páll segir íslensku og kanadísku kennarana geta lært af hverjum öðrum og Andrew tekur undir. „Skiptin milli ykkar kennara og okkar eru rík. Ég held að við munum ganga í burtu betri og skilja kennslustofuna ykkar eftir aðeins betri. Það er vonin. Við viljum að kennararnir okkar taki það besta sem þeir lærðu og noti það svo þeir geti hjálpað til við að breyta því sem er að gerast í Nova Scotia,“ segir Andrew.

Andrew segir Ísland vera að gera frábæra hluti í menntamálum og óskar þess að allir 120 kennaranemarnir þeirra gætu komið hingað. Hann leggur samt áherslu á að það séu líka góðir hlutir að gerast í Nova Scotia.

„Stundum held ég að við þurfum að horfa út fyrir strandlínuna okkar svo við getum séð það sem er tekið sem sjálfsögðum hlut. Við erum að gera góða hluti. Kennarar gera ótrúlega hluti á hverjum degi með takmarkaða fjármögnun og yfirfylltar kennslustofur. Samt tekst þeim að skila gæðum. Við ættum samt alltaf að vera að horfa út fyrir eigin skóla og sjá hvað er að gerast annars staðar.“

Kennaranemarnir ásamt Páli Sveinssyni skólastjóra Vallaskóla.
Ljósmynd: Aðsend.

Nýjar fréttir