Kjörís hefur gefið út nýja íslínu í samstarfi við vinsælu strákahljómsveitina IceGuys. Þeir gáfu nýlega út lagið Stígðu inn þar sem textinn býður hlustendum inn í nýjan heim – ísheiminn. Nú er það orðinn veruleiki. Búið er að gefa út tvenns konar tegundir af ís, annars vegar IceGuys ísinn og hins vegar IceGuys flaugar.
„Það er búið að leggja rosalega mikið í vöruþróunina. Þetta er sennilega með bestu vörum sem við höfum gefið út,“ segir Elías Þór Þorvarðarson, markaðsstjóri Kjörís.
Í frostpinnanum heitir bragðið Blue Ice. „Það er ekki gefið nákvæmlega upp hvað Blue Ice stendur fyrir en þetta er mjög fersk, pínu súr upplifun sem spilar ofboðslega vel með bláa súkkulaðinu sem er utan um,“ segir Elías.

Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.
„Svo er íspinninn. Þar erum við í grunninn að læra á því sem hefur slegið í gegn. Við erum að nota karamellu í miðjuna sem fyllingu og ísinn er vanilluís með hvítsúkkulaði. Hann er svo hjúpaður með bláa súkkulaðinu. Bláa súkkulaðið er þeirra einkennisútlit.“

Aðspurður að því hvernig samstarfið kom til segir Elías Kjörís og IceGuys hafa talað saman um hvort það væri ekki upplagt að IceGuys, sem standi nánast fyrir ís, færu í samstarf með Kjörís með svipuðum hætti og Sunneva Einarsdóttir og Birta Líf Ólafsdóttir gerðu með Bestís.
Iceguys voru með sterkar skoðanir á því hvernig ísinn ætti að vera. „Þetta voru margir fundir með þeim. Þeir voru bæði í smakki hér í Kjörís og heima hjá mér í Reykjavík. Það voru mikil fundarhöld í kringum þetta. Þeir standa fyrir þessu og voru mjög skýrir með hvað þeir vildu og allir komu með eitthvað innlegg,“ tekur Elías fram.
„Við vorum til að byrja með að hugsa bara um einn ís en svo kom það strax í ljós að við gætum ekki verið bara með einn. Það þarf að vera frostpinni, það þarf að vera íspinni og svo þurfum við að koma með einhverja dollu. Núna erum við að leggja áherslu á pinnana og að koma þeim í allar búðir“ segir Elías.
Að lokum segir Elías meira vera í vændum í samstarfi Kjörís og IceGuys sem greint verður frá á næstu vikum.