4.2 C
Selfoss

Vantar herslumuninn á að Skálholtsdómkirkja eignist sinn eigin flygil

Vinsælast

Jón Bjarnason organisti í Skálholtsdómkirkju hefur unnið að því ötullega undanfarin ár að safna fyrir flygli í kirkjuna. Dágóður sjóður fékkst frá Kirkjubyggingarsjóði frá Laugarvatni sem lagði grunninn að söfnuninni. Undanfarið ár hafa verið haldnir fjölmargir tónleikar í Skálholtsdómkirkju þar sem gestir hafa lagt fram frjáls framlög í sjóðinn. Ríkisstjórn Íslands veitti 4 milljónir í sjóðinn í lok árs, en einnig hafa einstaklingar gefið minni og stærri fjárhæðir, m.a. 1 milljón í minningu Helgu Ingólfsdóttur sem stofnaði Sumartónleika í Skálholti. Um helgina buðu Karlakórinn Fóstbræður og Karlakór Selfoss upp á magnaða tónleika í kirkjunni þar sem safnaðist hátt í 200.000 kr.

„Það hefur aldrei í sögunni verið til flygill í Skálholtsdómkirkju“, segir Jón Bjarnason, tónlistarstjóri Skálholts „Það er gríðarlega öflugt tónlistarlíf í Skálholti og er hljómurinn þar algjörlega magnaður. Á hverju ári eru haldnir fjölmargir tónleikar og er Skálholt einn eftirsóttasti staður á Íslandi fyrir kórtónleika. Reglulega eru þar tónleikar með innlendum og erlendum kórum. Oft er píanóundirleikur nauðsynlegur með kórtónlist og er mjög mikilvægt að Skálholtsdómkirkja geti boðið upp á slíkt hljóðfæri í hæsta gæðaflokki þegar á þarf að halda. Flygill kemur sér einnig frábærlega í helgihaldi staðarins með sálmasöng og er oft mjög góður með píanóundirleik.“

Það virðist örlagakennt að einmitt þegar Kópavogsbær ákveður að selja annan flygil Salarins til þess að fjármagna kaup á nýjum Steinway-flygli sé Skálholtsstaður að leggja lokahönd á að safna fyrir einmitt slíku hljóðfæri. Safnast hefur dágóð upphæð í flygilsjóð Skálholts sem byrjaði með stóru og veglegu framlagi frá Kirkjubyggingarsjóði frá Laugarvatni. Síðan hafa verið nokkrir tónleikar og hafa ýmsir lagt fram rausnarleg fjárframlög í þetta góða málefni. Fráfarandi ríkisstjórn styrkti sjóðinn um fjórar milljónir króna í desember síðastliðnum. Aðeins vantar rúmar þrjár milljónir til að geta fjármagnað flygilkaupin að fullu. Því var ákveðið í samvinnu við Salinn að halda söfnunartónleika og við erum þess fullviss að þessir tónleikar munu skila okkur inn því sem upp á vantar.

Á þessum tónleikum kemur fram tónlistarstjóri og organisti Skálholts, Jón Bjarnason, ásamt Skálholtkórnum, félögum úr Karlakór Selfoss auk þess sem fram koma einsöngvarar og hljóðfæraleikarar sem starfað hafa með Skálholti til fjölda ára.

Á efnisskránni verða leikin verk á píanóið sem spanna sögu tónbókmenntanna frá J. S. Bach, Beethoven, Chopin, Lizst og allt til okkar ástsælu Páls Ísólfssonar og Sigvalda Kaldalóns.

„Við vonum að allir velunnarar Skálholts sjái sér fært að koma og styrkja okkur að koma þessu glæsilega hljóðfæri til okkar.“ segir Jón vongóður.

Söfnunartónleikarnir verða haldnir laugardaginn 5. apríl kl. 18:00. Miðaverð er 3900 kr. og hægt er að kaupa miða á tix.is https://tix.is/event/19308/fra-salnum-i-skalholt-sofnunartonleikar

Nýjar fréttir