5.7 C
Selfoss

Vallaskóli sigraði Stóru upplestrarkeppnina í Árborg

Vinsælast

Lokakeppni Stóru upplestrakeppninnar í Árborg var haldin í Stekkjaskóla 27. mars síðastliðinn.

Lokakeppnin er samstarfsverkefni grunnskólanna og Skólaþjónustu Árborgar og hefur undirbúningur staðið yfir frá Degi íslenskrar tungu 16. nóvember sl.

Á heimasíðu Árborgar segir að allir nemendur 7. bekkja grunnskóla sveitarfélagsins hafi fengið þjálfun í vönduðum upplestri á undirbúningstímabilinu. Undankeppni var haldin í hverjum skóla og sigurvegarar hvers skóla tóku svo þátt í lokakeppninni. Keppendur að þessu sinni voru 11 talsins.

Keppendur voru 11 talsins.
Ljósmynd: arborg.is.

Keppnin fór þannig fram að keppendur lásu samtals þrisvar sinnum. Í fyrstu umferð var lesið textabrot úr bókinni Draumur eftir Hjalta Halldórsson, næst voru lesin ljóð eftir fyrirfram ákveðna höfunda og í þriðju umferð lásu nemendur ljóð að eigin vali.

Dómnefndina skipuðu Anna Linda Sigurðardóttir, Hildur Bjargmundsdóttir, Hrund Harðardóttir, Ragnheiður Ragnarsdóttir og Sigríður Pálsdóttir. Formaður dómnefndar hafði á orði að nefndinni hefði verið mikill vandi á höndum þar sem keppendur voru mjög vel undirbúnir og stóðu sig allir með miklum sóma.

Sigurvegari keppninnar í ár var Arnar Bent Brynjarsson úr Vallaskóla, í öðru sæti var Elísabet Kristel Þorsteinsdóttir úr Vallaskóla og í þriðja sæti var Árný Ingvarsdóttir einnig úr Vallaskóla.

Ljósmynd: arborg.is.

Nýjar fréttir