Opin ráðstefna um auðgandi landbúnað verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica 2. apríl nk. frá klukkan 8:30 – 17:00.
Dagskrá verður í gangi allan daginn og mæta meðal annars þrír bandarískir fyrirlesarar á ráðstefnuna. Það er Peter Byck, prófessor við Arizona State University. Hann leiðir 10 milljón dollara rannsókn á Adaptive Multi-Paddock beit og hefðbundinni beit með áherslu á jarðvegsheilbrigði, kolefnisbindingu og líffræðilega fjölbreytni. Einnig mætir Allen Williams sem er bóndi í 6. ættlið og sérfræðingur í endurnýjandi landbúnaði. Dr. Kris Nichols, sérfræðingur í jarðvegsheilbrigði, verður einnig með fyrirlestur á ráðstefnunni. Hún hefur rannsakað tengsl jarðvegs, örverufræði og kolefnisbindingar.
Auðgandi landbúnaður lýsir heildrænum landbúnaðarkerfum sem, meðal annars, bæta vatns- og loftgæði, auka líffræðilegan fjölbreytileika vistkerfa, framleiða næringarríkan mat og geyma kolefni til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Þessi búskaparkerfi eru hönnuð til að vinna í sátt við náttúruna, en jafnframt viðhalda og bæta efnahagslega hagkvæmni.
„Auðgandi landbúnaður er leiðin fram á við til að kolefnisjafna matvælakerfið og gera landbúnaðinn þolinn fyrir loftslagsáföllum. Það mun ekki gerast nema okkur takist að gera það viðskiptalega aðlaðandi fyrir bændur. Bændur verða að vera í forgangi sem lykilaðilar í baráttu okkar gegn loftslagsbreytingum,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum ráðstefnunnar.
Auðgandi landbúnaður leiðir til heilbrigðs jarðvegs, sem getur framleitt hágæða, næringarrík matvæli á sama tíma og hann bætir land og leiðir að lokum til frjósamra býla og heilbrigðra samfélaga og hagkerfa. Horfa þarf til búskapar með heildrænum hætti, sem felur í sér vistræna og lífræna búskaparhætti. Með því t.d. að draga úr jarðvegsraski, nota þekjugróður, skiptiræktun, moltugerð, beitarstjórnun og gerð beitilands, til að auka matvælaframleiðslu, auka tekjur til bænda og sérstaklega að bæta efsta hluta jarðvegsins.
Ávinningur
• Minni kostnaður fyrir bændur vegna minni áburðarkaupa, arfaeiturs o.fl.
• Dregur úr eldsneytisnotkun – ekki eins oft verið að plægja – léttari vélar.
• Með því að draga verulega úr, jafnvel hætta alveg árvissri plægingu, þar sem það er stundað, þá eykst efsti hluti jarðvegsins (topsoil).
• Með þekjugróðri dregur úr jarðvegsfoki og eyðingu jarðvegs.
• Aukin binding kolefnis í jarðveginn – loftslagsbæting.
• Jarðvegur verður meira lífrænn – örveruflóran eykst.
• Vatnsbúskapur bætist með getu jarðvegsins að halda meiri vatni.
• Plöntur heilbrigðari – standa betur af sér skordýraárás og sýkingar
• Hagkvæm beitarstjórnun búfénaðar getur dregið úr notkun tilbúins áburðar o.fl.
• Kjöt af grasfæddum búfénaði er talið heilnæmara.
• Þar sem ekki eru notuð kemísk efni, eins og tilbúinn áburður skordýraeitur og þess háttar, þá hafa rannsóknir sýnt fram á það að grænmeti og kjöt, sem eru framleidd við slíkar aðstæður verður heilbrigðara og næringarríkara.